Innlent

Fróm fyrir­heit í jóm­frúarræðu­hlað­borði

Jakob Bjarnar skrifar
Frá þinginu í dag. Þar ríkti mikil eftirvænting en tíu þingmenn fluttu jómfrúarræður sínar.
Frá þinginu í dag. Þar ríkti mikil eftirvænting en tíu þingmenn fluttu jómfrúarræður sínar. vísir/vilhelm

Ekki er víst að annar eins her þingmanna hafi flutt sínar jómfrúarræður og gerðist nú síðdegis á Alþingi Íslendinga. Ræðurnar voru flestar fluttar af nokkru öryggi og í máli sumra hinna nýju þingmanna mátti greina fróm fyrirheit; þeir ætla að vinna landi og þjóð gang með störfum sínum.

Nýir þingmenn eru 33, en þess ber þó að geta að þar á meðal eru fimm þingmenn sem áður hafa setið á Alþingi sem aðalmenn. Tíu þeirra fluttu sína fyrstu ræðu en það var undir dagskrárliðnum störf þingsins sem þessi jómfrúarræðugjörningur fór fram. Þá mátti sjá hvaða mál eru þeim efst eða ofarlega í sinni. Ræðurnar voru ýmist almenns eðlis eða sértækar.

Að gera Ísland að betra landi

Sá fyrsti sem steig á stokk var fullur eftirvæntingar. Ræða hans var á almennum nótum. Þetta var Sigurður Helgi Pálmason Flokki fólksins og hann var svo sannarlega þar.

„Það er mér bæði heiður og ánægja að standa hér í dagi sem nýr fulltrúi á Alþingi okkar Íslendinga,“ sagði Sigurður Helgi. „Ég vil þakka það mikla traust sem mér er sýnt.“

Sigurður Helgi sagðist líta á það sem mikla ábyrgð sem hann tæki af bæði mikilli alvöru og auðmýkt. Hann sagðist sannfærður að reynsla sín og rödd myndi nýtast í að berjast fyrir þá sem minnst mega sín.

Sigurður Helgi var nánast bljúgur í sinni fyrstu ræðu.vísir/vilhelm

„Fyrir fólkið sem hefur ekki sterkustu röddina, fyrir þá sem glíma við erfiðleika sem flest okkar hafa ekki þurft að glíma við. Fyrir börnin sem lifa í fátækt í landi þar sem velsæld ríkir.“

Sigurður Helgi sagðist hafa miklar væntingar, hann hygðist læra og leggja sitt af mörkum. „Með jákvæðni, brosi og lausnir að vopni. Samtalið og rökræðurnar gefa okkur tækifæri sem fáir fá, að gera Ísland að betra landi. Ég hlakka til að vinna með ykkur, læra af ykkur og deila með ykkur þeirri lífreynslu sem hefur hjálpað mér að verða að þeim manni sem ég er í dag.“

Alvarleg staða íslenskrar tungu

Næst steig á stokk Snorri Másson Miðflokki sem fór beint í það mál sem hann hefur áður talað um, nefnilega stöðu íslenskrar tungu. Hann sagðist sakna þess að forsætisráðherra hefði ekki vikið svo mikið sem orði þar að.

„Við finnum að hið opinbera mál okkar Íslendinga víkur á sífellt fleiri sviðum fyrir ensku. Mjög víða þykir enska raunar sjálfsagt mál, hvort sem það er í verslun og þjónustu eða jafnvel í enskumælandi ráðum í íslenskri stjórnsýslu,“ sagði Snorri.

Hann sagði að á Íslandi hafi á undanförnum árum verið slegið heimsmet í lélegum árangri aðfluttra við að læra tungumálið í nýja heimalandinu.

Snorri Másson ræddi um alvarlega stöðu íslenskunnar.vísir/vilhelm

„Aðeins 18 prósent hafa tileinkað sér tungumálið hér á meðan samanburðarlöndin státa flest af hátt í sextíu prósenta árangri í sama flokki. Á sama tíma hefur íbúasamsetning landsins gjörbreyst á rétt rúmum áratug með nær óheftum innflutningi vinnuafls, sem ég veit vel að flestir hér hafa sagt nauðsynlegan.“

Snorri nú svo komið að 38 prósent landsmanna á aldrinum 30-39 ára séu með erlent ríkisfang. Og 38 prósent íbúa á þessu aldursbili séu erlendir.

„Maður skyldi halda að svo róttæk breyting myndi vekja áhuga forsætisráðherra og annarra þingmanna í nýrri ríkisstjórn.“

Snorri sagði þetta vítavert stefnuleysi en lauk svo máli sínu með að segja það heiður að vera kjörinn á Alþingi á þessum umbrotatímum um víða veröld. Sú ábyrgð sé mikil.

„Hér mega okkur ekki verða á mistök, sem við getum ekki dregið til baka.“

Jarðgöng og fleiri jarðgöng

Næstur til að flytja sína jómfrúarræðu var Jens Garðar Helgason Sjálfstæðisflokki. Hann gerði jarðgöng, eða öllu heldur skort á þeim, að umtalsefni.

„Þrátt fyrir háleit markmið stjórnvalda hefur ríkt kyrrstaða um gerð jarðgangna,“ sagði Jens Garðar. Hann sagði viðhald og áframhaldandi uppbyggingu innviða mátt sitja á hakanum og þar með talin jarðgöng. Þá kyrrstöðu verði að rjúfa.

„Meðan ekki hafi verið stungið niður skóflu í fimm ár hafi Færeyingar verið á fullu að tengja eyjarnar með jarðgöngum. Hér á Íslandi hreyfist ekki neitt.“

Jens Garðar vill fleiri jarðgöng og vísaði til frænda vorra Færeyinga í því sambandi.vísir/vilhelm

Jens sagði frændur okkar Færeyinga hugsa út fyrir boxið. Þeir hefðu stofnað opinbert hlutafélag til að halda utan um allar framkvæmdir. Og þær væru fjármagnaðar með hagstæðum lánum.

„Gjaldskylda í öll göng og passi sem gildir í þau öll.“

Jens Garðar taldi vert að skoða alvarlega að stofna jarðgangafélag Íslands því með nýrri nálgun mætti rjúfa kyrrstöðuna.

Ofbeldi gegn konum og hatursorðræða

Ása Berglind Hjálmarsdóttir Samfylkingu var næst í púlt og hún sagðist hafa lesið í rannsókninni „Áfallasögu kvenna“ að fjörutíu prósent þeirra verði fyrir ofbeldi á lífsleiðinni og ein af fjórum konum er beitt kynferðisofbeldi.

„Tíðni kvenmorða hefur ekki mælst jafn há á Íslandi í yfir þrjá áratugi,“ sagði Ása Berglind. Og hún vitnaði því næst í Óoöfu Töru Harðardóttur, sem sagði: „Ég er bara venjuleg kona að reyna að lifa af í heimi þar sem lífi mínu er ógnað fyrir það eitt að vera kona.“

Ása Berglind sagði þolendur finna sig knúna, þeir sem hafa til þess styrk, að rísa upp og berskjalda sig aftur og aftur í þeirri von að breyta og hafa áhrif til góðs.

Ása Berglind gerði ofbeldi gegn konum að umtalsefni í sinni fyrstu þingræðu.vísir/vilhelm

„Við erum að biðja um öruggt samfélag fyrir öll í stað samfélags sem er samofið ofbeldismenningu og litað af hatursorðræðu. Við biðjum um réttarkerfi sem virkar fyrir þolendur ofbeldis þar sem þeir fá aðild að eigin málum í stað réttarkerfis sem þolendur veigra sér við að leita til því upplifunin er í raun niðurlægjandi. Við hljótum líka öll að vilja samfélag sem trúir þolendum og hlustar í stað þess að þagga niður í þeim, smána með háði, hótunum og áreiti.“

Ása Berglind sagði þá að í kröfum sem lagðar voru fram í tilefni Kvennaárs 2025 segði meðal annars að endurskoða þurfi lög um nauðganir og annað kynbundið ofbeldi, að gera eigi hatursorðræðu refsiverða og tryggja menntun í kynja- og hinsegin fræðum.

Betri samgöngur á Austfjörðum

Þá var komið að Ingvari Þóroddssyni Viðreisn sem ræddi um fæðingu drengs á Seyðisfirði, í fyrsta skipti í 32 ár!

Þessi inngangur leiddi hann yfir í að boða nauðsyn betri samgangna á Austfjörðum. Ingvar vitnaði í bókun um samgöngumál á Austurlandi frá stjórnarfundi 31. janúar sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi sendi Þingmönnum Norðausturkjördæmis þar sem segir meðal annars: 

Ingvar vill betri samgöngur á Austfjörðum.vísir/vilhelm

„Í ljósi þess ástands sem skapaðist 19.–20. janúar á Seyðisfirði, þegar íbúar lokuðust inni í firðinum vegna ófærðar á sama tíma og rýma þurfti stór svæði í bænum vegna snjóflóðahættu, telur stjórn SSA rétt að minna á ályktun sína frá haustþingi 2024 þar sem lögð var áhersla á að ríkisvaldið standi við fyrirheit um öruggt og greiðfært vegakerfi innan landshlutans.“

Ingvar sagðist taka undir hvert einasta orð og skoraði á þingheim, og þá sérstaklega nýja ríkisstjórn og nýjan samgönguráðherra, að setja mikilvægar framkvæmdir á dagskrá sem fyrst. „Austfirðingar hafa beðið of lengi.“

Að setja orkuöryggi á oddinn

Halla Hrund Logadóttir Framsókn leitaði ekki langt yfir skammt að umfjöllunarefni sem fyrrverandi orkumálastjóri. Hún óskaði nýrri ríkisstjórn velfarnaðar en sagði orkumálin þegar orðið að bitbeini í þingsal.

„Megi traust ríkja í nýtingu okkar fjölbreyttu og verðmætu auðlinda og ekki síður í náttúruvernd, orði sem ég hef saknað að sé nefnt með skýrum hætti hér í þingsal. Í áframhaldandi umræðu um orkumál þarf að hafa í huga að staða mála getur breyst hratt.“

Halla Hrund talaði um mikilvægi orkuöryggis.vísir/vilhelm

Halla Hrund rakti breyttar aðstæður undanfarinn áratug: Covid. Bitcoin hækkaði í verði, álverð hækkaði í verði, landeldi kom inn á markaðinn og eftirspurn jókst hratt. Eftirspurn jókst vegna áskorana í Evrópu, orkukrísunnar og í ofanálag var fólksfjölgun hér á landi að aukast mikið.

„Samtímis var minna af orku í boði því að lón Landsvirkjunar voru sögulega lág, sem hefur reyndar breyst undanfarið með slagveðrinu sem hefur gengið yfir.“

Sviptingar hafi orðið á síðustu fimm árum; góð áminning um að ytri þættir geta breyst hratt sem hafa mikil áhrif á okkar orkumál.

„Sláum samvinnutón í orkumálum, vinnum þau faglega án upphrópana og ásakana því það er það sem Ísland á skilið,“ sagði Halla Hrund meðal annars.

Skipulögð brotastarfsemi

Rétt eins og Halla Hrund þá hélt Grímur Grímsson Viðreisn, sem var næstur í ræðutól þeirra sem fluttu jómfrúarræðu sína, sig við sitt sérsvið. Nefnilega skipulagða brotastarfsemi.

„Mig langar að ræða um skipulagða brotastarfsemi og helstu birtingarmyndir hennar hér á landi. Svo vill til að ég hef undanfarin ár stýrt rannsóknarsviði hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þar sem meðal annars eru til rannsóknar mál er varða grun um skipulagða brotastarfsemi.“

Skipulögð brotastarfsemi var umfjöllunarefni fyrstu ræðu Gríms.vísir/vilhelm

Grímur sagði töluverða aukningu hafa verið í slíkri háttsemi enda sá brotaflokkur sem mestum fjármunum veltir. En skipulögð brotastarfsemi getur átt við um fleiri brotaflokka svo sem mansal og peningaþvætti. „Svo það sé sett í samhengi þá er talið að haldlagning nemi um 2–3% af ólögmætum ávinningi brotastarfsemi Evrópu og endanleg upptaka í dómi er enn lægra hlutfall.“

Og Grímur nefndi einnig netbrot. Fjölgun lögreglumanna, sem dómsmálaráðherra hefði boðað væri fagnaðarefni.

„Það er engin sérstök ástæða til þess að mála stöðu er varðar skipulagða brotastarfsemi hér á landi of dökkum litum og þó að við fylgjumst með fréttum af Norðurlöndunum, einkum frá Svíþjóð þar sem við blasir alvarleg staða er varðar skipulagða brotahópa, þá eigum við ekki við sambærilegan vanda að stríða hér á landi. Við skulum þó gæta þess að við nálgumst ekki slíkt ástand meira en orðið er.“

Hakkar til vinnunnar sem framundan er

Næstur nýliða á þingi var Guðmundur Ari Sigurjónsson Samfylkingu og líkt og Sigurður Helgi Pálmason var hann mjög á almennum nótum í sinni ræðu.

„Sannur heiður að stíga hér í ræðustól þingsins í fyrsta sinn. Ég heiti því að nota rödd mína og áhrif að vinna þjóðinni til heilla,“ sagði Guðmundur Ari.

Guðmundur Ari sagði ríkisstjórn Kristrúnar vilja móta fyrstu ungmennastefnu landsins.vísir/vilhelm

Hann tíundaði að hann hafi unnið að málefnum ungs fólks, í forvarnarstörfum og fyrir bæjarstjórn undanfarin tíu ár. Guðmundur sagðist stoltur að tilheyra stórum jafnaðarmannaflokki sem leiddi ríkisstjórn og vildi standa vörð um hag almennings. Sama hvaða stétt það tilheyrði, sama hvaða stöðu.

Guðmundur sagði jafnframt að ríkisstjórn Kristrúnar hefði forgangsraðað húsnæðismálum, því að ungt fólk gæti eignast sitt eigið húsnæði og þá boðaði ríkisstjórnin sókn í menntamálum. Og þá hygðist ríkisstjórnin móta fyrstu ungmennastefnu landsins. Guðmundur sagðist hlakka til vinnunnar sem framundan væri.

Neyðarástand í menntamálum

Ekki var eins bjartur tónn í Jóni Pétri Zimsen Sjálfstæðisflokki, en skólamaðurinn einmitt vildi ræða menntamál en þó ekki í sama tóni og Guðmundur Ari hafði talað.

„Enginn sómi er af þingmálaskrá hæstvirtrar ríkisstjórnar hvað menntun og líðan barna varðar. Er bráðavandinn virkilega ekki ljós? Við erum sem samfélag að bregðast börnum og ungmennum,“ sagði Jón Pétur og sagði neyðarástand ríkja í þessum málaflokki.

Hann sagði 75 prósent stúlkna finna fyrir kvíða vikulega, þar af 34 prósent daglega. Fjörutíu prósent stúlka í 10. bekk upplifði depurð, þar af 17 prósent daglega. Ungmenni eru meira einmanna en elsti aldurshópur landsins. Jón Pétur sagði ekkert um þetta að finna í málefnaskrá ríkisstjórnarinnar.

Jón Pétur lýsti miskunnarlaus yfir neyðarástandi í menntamálum.vísir/vilhelm

Jón Pétur hélt miskunnarlaust áfram og sagði hornstein íslensku, lýðræðis og nýsköpunar vera lesskilningur. Þar væri staðan skelfileg. Um helmingur drengja sé ekki með grunnfærni í lesskilningi á gnægtarlandinu Íslandi. „Til að bíta höfuðið af skömminni eru tæp þrjátíu prósent fimmtán ára barna ekki með grunnfærni í skapandi hugsun.“

Jón Pétur sagði að þau í Sjálfstæðisflokknum væru tilbúna með áætlun; þau vildu lyfta öllum börnum burtséð frá stétt og stöðu. „Börn eiga ekki að gjalda stöðu sinnar.“

Skipulagður vinnumarkaður

Kristján Þórður Snæbjarnarson Samfylkingu, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, var síðastur þeirra sem fluttu jómfrúarræðu í dag. Hann hélt sig við sitt sérsvið og fjallaði um verkalýðsbaráttu.

Kristján Þórður sagði þrælahald hvergi leyft og því er ógnvekjandi að komi upp mál sem snúi að erlendu vinnuafli. Að á Íslandi vinni fólk ófrjálst og hafi lítið um kjör sín að segja.

Kristján Þórður sagði mikilvægt að gæta að réttindum launamanna.vísir/vilhelm

Hann sagði vel skipulagðan vinnumarkað þar sem kjörum væri skipt á réttlátan hátt nokkuð sem stefna bæri að. „Brot á fólki á vinnuarkaði, á ekki að líðast. Hér þurfum við þingmenn að taka til hendinni. Mansal á ekki að líðast og ætti ekki að vera refsilaust,“ sagði Kristján Þórður.

Hann sagði að við síðustu Alþingiskosningar hafi launafólki fjölgað í röðum þingmanna og það væri fagnaðarefni. Vert væri að nota þann byr til að stemma stigu við óréttlæti. Og styrkja þyrfti iðnnám til mikilla muna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×