Innlent

Fyrstu trén felld á morgun

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Annarri flugbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað vegna trjánna.
Annarri flugbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað vegna trjánna. Vísir/Vilhelm

Fyrstu trén verða felld í Öskjuhlíð á morgun. Annarri flugbraut Reykjavíkurflugvallar hefur verið lokað þar sem hæð trjánna ógnar öryggi flugfarþega.

„Við erum að vinna hörðum höndum að því að gera aðgerðaáætlun að því hvernig sé hægt að opna þess flugbraut,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri í viðtali í Reykjavík síðdegis í dag

Annarri flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli var lokað fyrir tveimur dögum vegna mikils trjágróður í Öskjuhlíð. Hæð trjánna er sögð hafa áhrif á öryggi flugfarþega um Reykjavíkurflugvöll. Lokunin átti sér langan aðdraganda. 

Fyrstu trén í Öskjuhlíð, um fjörutíu til fimmtíu, verða felld á morgun. Til þess að opna flugbrautina þurfi hugsanlega að fella fimm hundruð tré.

„Við erum að fara fella fjörutíu til fimmtíu tré á morgun. Það er svona fyrsta skrefið í því að verða við tilmælum Samgöngustofu um að fella þar dálítið af trjám. Lykilatriðið er það að opna flugbrautina og flugvöllurinn þjónar öllum landsmönnum, sjúkraflugið er þar mikilvægast. Við erum að vinna þetta í samvinnu við ISAVIA og Samgöngustofu,“ segir Einar í samtali við fréttastofu.

Fjöldi trjáa sé vegna breyttu verklagi hjá Samgöngustofu sem miðar nú við annan flöt en áður. Flöturinn sem miðað er við núna er lægri heldur en sá upprunalegi. Því þurfi að fella fjölda trjáa skyndilega.

„Þau tré sem voru talin í lagi eru ekki lengur talin í lagi,“ segir Einar.

Mikilvægast sé hins vegar aðgengi sjúkraflugs. Flugvöllurinn sé ekki á leið í burtu í allaveganna tuttugu ár að sögn Einars og því sé mikilvægt að fella trén.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×