Shiffrin, sem unnið hefur 99 heimsbikarmót á sínum glæsilega ferli, var stálheppin að ekki skyldi fara verr þegar það stakkst gat á kvið hennar við fall á heimsbikarmóti í Killington í nóvember.
Shiffrin ætlaði þar að ná þeim miklu tímamótum að vinna sitt hundraðasta heimsbikarmót en er núna enn að jafna sig andlega eftir slysið.
Þrátt fyrir að vera mætt á HM þá hefur Shiffrin nú ákveðið að taka ekki þátt í stórsviginu á mótinu en keppt verður í því á fimmtudaginn.
„Ég er andlega hindruð frá því að komast á næsta stig í hraða og að setja kraft í beygjurnar,“ sagði Shiffrin í talskilaboðum til AP fréttastofunnar.
„Þessi mikla sálræna barátta, sem er eins og áfallastreituröskun, er enn meiri glíma en ég bjóst við. Ég hélt að þegar við myndum lenda í Evrópu og fengjum reglulegar æfingar þá myndi ég bæta mig skref fyrir skref, og að ástríðan og löngunin til að keppa myndu yfirstíga allan ótta sem ég glímdi við,“ sagði Shiffrin.
Keppir í liðakeppni á morgun
Ekki liggur fyrir hvað það var sem stakkst inn í kvið Shiffrin í nóvember en hún hefur sjálf sagt líklegast að um toppinn á skíðastaf hennar hafi verið að ræða. Aðeins hafi munað millímetrum að meiðslin gætu orðið lífshættuleg.
Shiffrin sneri aftur til keppni í síðasta mánuði þegar hún varð í 10. sæti í svigi á móti í Frakklandi og hún stefnir enn á að keppa í svigi, sem er hægari og því hættuminni grein en stórsvig, á HM á laugardaginn.
Shiffrin ætlar einnig að keppa á morgun í nýju liðakeppninni þar sem tveir og tveir keppa saman í liði, þar sem annar keppandi keppir í svigi en hinn í bruni, og samanlagður tími gildir. Shiffrin mun því keppa í svigi með Breezy Johnson sem keppir í bruni en Johnson er nýkrýndur heimsmeistari í bruni.