Skoðun

Feilspor kjara­samninga og já­kvæð styrking launaafsláttar

Davíð Már Sigurðsson skrifar

Feilspor fyrri kjarasamninga kennara eru mörg, hin og þessi réttindi seld en einkennilegast hefur mér þótt ákvæðið um teymiskennslu. Teymiskennsla er hugsuð til þess að auðvelda starf kennara og auka gæði náms fyrir nemendur. Því er svo sérstakt að þetta ákvæði sem býður upp hvata fyrir verri laun kennara og verri kennslu nemenda. Þetta lýsir sér í því að ef meðlimir teymis forfallast, er hvati rekstraraðilans, í þessu tilviki skólans til að spara. Því þeir kennarar sem eru á vaktinni má bjóða hálfvirði forfallakennslu fyrir að dekka tvo nemendahópa, í stað þess að greiða fulla yfirvinnu fyrir annan kennara sem kemur inn.

Þetta kemur auðvitað fyrst og fremst niður á kennslunni, því kennarinn sinnir nemendum ekki 50% betur þó hann fái auka 50% fyrir tímann sem hann tekur við tveimur hópum.

Þar verðum við kennarar líka að passa upp á okkur. Ekki taka sífellt lægri taxta til að redda. Við töpum á því fjárhagslega og nemendur námslega. Þú heldur að þú sért að hlaupa undir bagga og redda hlutunum. En þú verður líklega bara þreyttari, sem gerir þig svo verr í stakk búinn til þess að kenna nemendunum sem þú ert nú þegar með ábyrgð á. Svo ekki sé talað um nemendurna sem koma til þín í tímana eftir tvöfaldan nemendahóp.

Dagurinn verður líklega erfiðari og þú kemur þreyttari heim. Og ef þetta er gert þá ertu að búa til fordæmi fyrir vinnuveitandann að þetta sé í boði. Jákvæða styrkingu á því að bjóða þér afslátt á laununum þínum. Sem gerir það að verkum að oftar er spurt og þá getur vítahringurinn byrjaður.

Setjum okkur og nemendur okkar í forgang. Gerum sjálfum okkur greiða sem stétt og verum ekki að undirbjóða okkur í launum. Það er nóg að aðrir séu að sjá um það fyrir okkur.

Höfundur er kennari.




Skoðun

Sjá meira


×