Lífið samstarf

„Í þessu jarð­neska lífs­braski er G-víta­mínið bráðnauð­syn­legt“

Geðhjálp
Fjölmiðlamaðurinn Þorsteinn J. segir lesendum Vísis frá G-vítamínunum sínum.
Fjölmiðlamaðurinn Þorsteinn J. segir lesendum Vísis frá G-vítamínunum sínum.

Landssamtökin Geðhjálp ýttu úr vör í upphafi þorrans árlegu 30 daga geðræktarátaki sem ber heitið G-vítamín og er byggt á Geðorðunum 10 og 14 Lífsorðum Héðins Unnsteinssonar og Þórdísar Rúnarsdóttur. Hér segja fjölmiðlamaðurinn Þorsteinn J. og lögmaðurinn Helga Vala Helgadóttir lesendum frá G-vítamínunum sínum.

„Í þessu jarðneska lífsbraski er G-vítamínið bráðnauðsynlegt,“ segir Þorsteinn. „Ég geri hluti sem ég veit að eru nærandi, svo ég nefni strax það nýjasta: Yoga Nidra klukkan fimm á föstudögum hjá Stefáni Atla í Skeifunni, stórkostlegur endir á vinnuvikunni.

Svo hóflegar lyftingar og gufa í Neslauginni þar sem útiklefinn er alveg G-vítamín pakki út af fyrir sig. Ég nota hljóðbækur mikið, dásamlegt að láta lesa fyrir sig og svo það allra besta: Matur og góðir eftirréttir, það er jafnvel sterkara G-vítamín að sleppa matnum alveg og fara beint í eftirréttinn ef svo ber undir.“

Á þorranum munu birtast á Vísi greinar sem fjalla um átakið, auk þess sem eitt G-vítamín mun birtast á forsíðunni á Vísi daglega meðan átakið stendur yfir. Á sama tíma munu útvarpsstöðvarnar Bylgjan, FM957 og X977 vekja athygli á átakinu, fjalla um G-vítamín dagsins og fjalla almennt um geðheilbrigði.

„Það er heilmikið vítamín í því að minna sig á það góða í lífi sínu og dvelja ekki í því sem er flókið og neikvætt,” segir Helga Vala Helgadóttir lögmaður.

Helga Vala segir sín G-vítamín vera helst þessa litlu, hversdagslegu hluti í lífinu. „Það er t.d. kaffibollinn á laugardagsmorgnum með manninum mínum eða það að dunda mér lengi við að elda einhvern skemmtilegan mat og fá fjölskylduna saman við borðstofuborðið.“

Þannig að ég ætla að segja að mitt G-vítamín í dag er þakklætið.

Að skjótast út í göngutúr er líka vítamín sem Helga sækir í þegar hún þarf að hreinsa hugann. „En akkúrat núna, þegar ég hugsa um lífið þá er G-vítamínið í dag kannski bara þakklæti fyrir litla sem stóra sigra í eigin lífi. Þakklæti fyrir allt góða og skemmtilega fólkið sem maður umgengst í lífi og starfi. Það er heilmikið vítamín í því að minna sig á það góða í lífi sínu og dvelja ekki í því sem er flókið og neikvætt. Sólin vermir og fær mann til að brosa en það gerir þakklætið líka. Þannig að ég ætla að segja að mitt G-vítamín í dag er þakklætið.“

Dagatal með G-vítamínskömmtum er til sölu á vef Geðhjálpar og í völdum verslunum Krónunnar um allt land.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.