„Þetta mun rýra rekstraröryggi flugvallarins um 25 prósent þar sem Isavia hefur gefið út tölur um að braut 13/31 er í notkun 25 prósent af tímanum,“ segir Tómas Dagur Helgason, flugrekstrarstjóri Norlandair á Akureyri, í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Austur/vestur-braut flugvallarins verður lokað frá og með laugardegi, samkvæmt tilskipun sem Samgöngustofa sendi Isavia í gærkvöldi. Ástæðan er sú að Reykjavíkurborg hefur ekki uppfyllt kröfur um að trjágróður í Öskjuhlíð, sem vaxið hefur upp í hindranafleti, skuli felldur.

„Ég bara biðla til allra þeirra sem stýra þessu, það er borgarstjórnar, innviðaráðherra, Samgöngustofu, Isavia, að setjast niður og leysa þetta mál. Þetta má bara ekki gerast.
Það er verið að setja… - það er verið að raska heilbrigðiskerfinu verulega í landinu og stofna lífi landsmanna í hættu.
Við erum ítrekað búnir að lenda í því að við erum að koma inn til Reykjavíkur með fólk í alvarlegu ástandi, fólk í hjartastoppi, inn í aðflugi inn á braut í Reykjavík.
Ekki setja okkur í þessa stöðu. Leysið þetta. Fellið þessi tré sem þarf að fella og það strax,“ segir flugrekstrarstjóri Norlandair, í viðtali sem heyra má hér: