Ástráður Haraldsson, ríkissáttasemjari, segir í samtali við fréttastofu að vel hafi gengið hjá samninganefndum í kennaradeilunni í gær og að jákvæð framvinda hafi orðið en bætir þó við um leið að ómögulegt sé að spá fyrir um hversu mikið sé eftir eða hvort þeim takist að ná saman. Á meðan samninganefndirnar séu í jákvæðum fasa þá gleðjist hann.
Sáttafundur hefst um eitt leytið í dag en Ástráður segir að þangað til sé fólk að vinna heima og að undirbúa svör við spurningum sem út af stóðu eftir fundarhöld gærdagsins.
Annar fasi í verkföllum kennara hófst á mánudag sem þýðir að um fimm þúsund börn í alls 21 leik- og grunnskóla eru frá skóla. Síðdegis í gær boðuðu framhaldsskólakennarar síðan til ótímabundins verkfalls í fimm framhaldsskólum sem á að hefjast 21. febrúar hafi samningar ekki náðst.