Árásin átti sér stað um hádegi í gær í Campus Risbergska-skólann í Örebro. Í skólanum fer fram fullorðinsfræðsla en var hann áður framhaldsskóli.
Maðurinn sjálfur er sá ellefti sem lést í árásinni en hann er talinn hafa svipt sig lífi þegar lögregluþjóna bar að garði, samkvæmt SVT. Talið er að hann hafi mögulega skotið í átt að lögregluþjónum fyrst en það er til rannsóknar.
Ekki er búið að bera kennsl á alla þá sem dóu í árásinni enn, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Sex særðust og tveir þeirra eru enn á gjörgæslu. Að öðru leyti er lítið vitað um fórnarlömb árásarinnar enn sem komið er.
Hann hefur ekki verið nafngreindur af lögreglu en blaðamenn Aftonbladet hafa eftir ættingjum árásarmannsins að hann hafi verið mikill einfari og hafi staðið illa félagslega. Hann hafði aldrei verið dæmdur fyrir glæpi og var ekki þekktur af lögreglu.
Hann var með skotvopnaleyfi og er sagður hafa notað hálfsjálfvirka byssu sem hann átti löglega til árásarinnar.
Lögreglan segir manninn hafa falið byssu sína í gítartösku, eða svipaðri tösku, þegar hann fór inn í skólann. Samkvæmt heimildum Aftonbladet gekk hann um skólann um nokkurt skeið áður en hann fór inn á salerni. Þar mun hann hafa skipt um föt, klætt sig í föt í felulitum og tekið að minnsta kosti eitt vopn upp úr töskunni.
Lögregluþjónar munu hafa verið fljótir á vettvang og sáu þeir manninn í skólanum. Þá mun hann hafa kastað frá sér reyksprengju og svipt sig lífi.