Sport

Ekki komið að kveðju­stund hjá Gunnari Nel­son

Aron Guðmundsson skrifar
Gunnar Nelson mætir Kevin Holland á bardagakvöldi UFC í London þann 22.mars næstkomandi.
Gunnar Nelson mætir Kevin Holland á bardagakvöldi UFC í London þann 22.mars næstkomandi. Vísir/Einar

UFC bar­daga­kappinn Gunnar Nel­son á ekki von á því að komandi bar­dagi hans í London verði hans síðasti á at­vinnu­manna­ferlinum. And­stæðingur hans í komandi bar­daga er af skraut­legri gerðinni og leiðist ekki að tala við and­stæðinga sína í búrinu. Gunnar vonar að hann tali um eitt­hvað sem hann hefur áhuga á.

Það fara að verða komin tvö ár síðan að Gunnar barðist síðan í UFC, það var þegar að hann kláraði Bandaríkja­manninn Bry­an Bar­berena í fyrstu lotu á bar­daga­kvöldi í O2 höllinni í London. Gunnar hefur stefnt á endur­komu í nokkra mánuði núna.

Bryan Barberena átti aldrei séns í Gunnar Nelson þegar þeir mættustGetty/Catherine Ivill

„Við erum búnir að vera leita að and­stæðingi síðan í fyrra, vorum þá að horfa á bar­daga í desember. Það leið ein­hver mánuður þar sem að við töldum okkur vera að fá and­stæðing en á endanum fékkst ekkert. Þeir eigin­lega fóru þá strax að tala um bar­daga­kvöldið í mars í London,“ segir Gunnar við íþrótta­deild.

Er maður að pirra sig á því þegar að svona er þegar að þú ert klár í að berjast í desember en þarft svo að bíða fram í mars?

„Nei það þýðir ekkert. Jú auðvitað er leiðin­legt að vera of mikið á tánum en ég er eigin­lega löngu hættur að vera allt of mikið á tánum í svona aðstæðum. Ég hef svo oft misst and­stæðing og ein­hver nýr komið inn í hans stað og stundum ekki. Þetta er ein­hvern veginn bara partur af þessu. Maður er orðinn helvíti vanur þessu.“

And­stæðingur Gunnars á bar­daga­kvöldinu í mars er Bandaríkjamaðurinn Kevin Holland, vel þekkt stærð innan UFC.

Talandi um það að and­stæðingar hafi oft þurft að draga sig frá keppni gegn þér. Ertu að búast við því að mæta Kevin Holland í búrinu í mars?

„Ég geri ráð fyrir því,“ svarar Gunni hlægjandi. „En, eins og við höfum séð áður, getur allt gerst.“

Kevin Holland er líflegur karakter.Vísir/Getty

Spennandi og þekktur andstæðingur

Gunnar er spenntur fyrir því að mæta Holland í búrinu.

„Ég er mjög glaður með að hafa fengið and­stæðing sem er svona spennandi og þekktur. Sér­stak­lega fyrir þá sem eru að fylgjast með mér og koma út á bar­daga. Þetta er meira spennandi heldur en sumir and­stæðingar sem ég hef fengið. Fyrir mér er hann náttúru­lega bara bar­dagamaður, burtséð frá því hvort hann sé vinsæll eða ekki horfi ég bara á hann sem slíkan. Mér finnst þetta mjög skemmti­leg viður­eign.“

Holland hefur hins vegar séð betri daga á sínum ferli og hefur hann tapað fjórum af síðustu fimm bar­dögum sínum. Tækifærin eru til staðar fyrir Gunnar til þess að taka hann niður í jörðina þar sem að okkar manni líður best en Holland hefur á sama tíma sýnt veik­leika­merki þar.

„Hann hefur tapað nokkrum á jörðinni og það gefur auga­leið fyrir mig að fara með hann niður eins og ég hef gert áður og er ein­hvern veginn alltaf svolítið minn bar­dagastíll. Það breytist held ég ekkert, hefur verið þannig frá því að ég byrjaði í þessu. Það er alltaf betra að vera ofan á en hins vegar gerir maður sig til­búinn fyrir allt. Ef það verður þannig að við stöndum í ein­hvern tíma þá er ég líka spenntur fyrir því.“

Stór, höggþungur og villtur

Holland hefur verið að flakka á milli milli­vigtar og velti­vigtar. Það verður að segjast eins og er að honum hefur gengið betur í velti­vigtinni og í þeirri þyngd mun bar­dagi hans og Gunnars vera.

„Hann er stór og langur. Er með held ég tveggja metra faðm og er um 190 centí­metrar á hæð, nokkuð höggþungur og síðan er hann svolítið villtur. Þetta er ekki hefðbundinn stíll sem hann býr yfir. Maður þarf því að vera með viðbrögðin í lagi.“

Holland hefur unnið þrettán bardaga en tapað tíu í UFC Vísir/ Getty

Er hann kannski hættu­legur út frá því að það hefur náttúru­lega alls ekki gengið vel hjá honum upp á síðkastið? Fjögur töp í síðustu fimm bar­dögum.

„Það gæti verið. Það er ákveðinn galli við þetta, að hann sé búinn að tapa reglu­lega upp á síðkastið. Hins vegar er hann með mjög fína feril­skrá í velti­vigtinni og þar munum við berjast, það er að segja ef hann nær vigt. Hefur unnið góða and­stæðinga en hefur verið í brasi upp á síðkastið. Það er síðra, minna spennandi, en gæti eins og þú segir gert hann grimmari og hættu­legri. Þannig stemmdan að hann þurfi að fara all-in núna með ekkert til að tapa.“

„Vonandi talar hann bara um eitthvað sem ég hef áhuga á“

Eitt hefur Holland þó fram yfir Gunnar. Hann hefur verið mjög virkur í búrinu undan­farin ár. Frá því í septem­ber árið 2019 hefur Gunnar barist þrisvar sinnum. Á sama tíma­bili er Holland búinn að berjast tuttugu og einu sinni. Hefur það áhrif?

„Þetta hefur ábyggi­lega allt áhrif. Ég hef oft verið spurður út í þetta svo­kallaða ryð (e.ring-rust) þegar að langt líður á milli bar­daga en ég hef sjálfur ekki fundið því sér­stak­lega. Það er ekkert nýtt fólgið í því fyrir mig að stíga inn í búrið eftir svona langa bið. Ég er búinn að vera að þessu í mörg ár. Síðan er hægt að segja á hinn bóginn að hann sé ferskari, með þetta meira ferskt í minni hvernig það er að standa þarna upp á sviðinu. En svo er hann kannski bara þreyttur á þessu.“

Gunnar ber íslenska fánann stolturVísir/Getty

Og á meðan að Gunnar er jafn ró­legur og við Ís­lendingar þekkjum hann fyrir, þessi maður sem býr yfir stóískri ró, þá er Holland á sama tíma mjög litríkur karakter sem þykir ekki leiðin­legt að tjá sig um hitt og þetta, meðal annars á meðan á bar­dögum hans stendur.

„Það eru and­stæður í þessu. Hann verður ábyggi­lega blaðrandi allan bar­dagann, eins og áður. Það er oft talað um að hann láti fúkyrðin dynja í búrinu (e.trash tal­ker) en mér finnst hann aðal­lega bara vera blaðrandi (e.tal­ker). Hann er bara eitt­hvað að blaðra. Jú það kemur kannski ein­hver skítur inn á milli en síðan bara heldur hann ekki kjafti allan tímann.“

En hvað gerir maður í svona stöðu. Þú hefur ábyggi­lega lent í því að vera innan búrsins og and­stæðingurinn að reyna tala við þig. Svararðu því eða læturðu það vera?

„Ég hef alveg spáð í þessu. Ég er vanur þessu líka frá æfingum, sumir eru mikið í því að tala. Það getur verið mjög skemmti­legt, fer svona eftir því hvað menn vilja tala um. Vonandi fer hann að tala um eitt­hvað sem ég hef áhuga á.“

„Á voða erfitt með að hætta þessu“

Bar­dagi þeirra fer fram á spennandi bar­daga­kvöldi UFC í O2 höllinni í London en þar hafa síðustu tveir bar­dagar Gunnars farið fram og er hann á tveggja bar­daga sigur­göngu.

„Það er alltaf gaman að berjast í London. Þó ég hafi nú verið búinn að tala um að það gæti verið gaman að taka ein­hvern skreppitúr á bar­daga­kvöld annars staðar. Það kemur kannski bara næst.“

Erum við ekki að tala um að þetta sé kveðju­bar­dagi þinn?

„Nei ég á eitt­hvað voða erfitt með að hætta þessu, en við sjáum til. Nei við tökum örugg­lega einn til viðbótar eftir þennan og svo kannski einn eftir það.“

Mér heyrist á þér að þú hafir íhuga þetta upp á síðkastið. Ertu ekki ákveðinn?

„Nei ég er svona hálf­partinn búinn að reyna hætta þessu í smá tíma. Það er bara erfiðara að gera það en að tala um það og hugsa. Þetta er svona… ég veit eigin­lega ekki alveg hvað ég á að segja. Þetta er svo stór partur af manni og ég er enn þá helvíti ferskur, er enn að bæta mig mikið. Mér finnst þetta gaman, finnst þetta spennandi. Hins vegar verða æfingarnar, og undir­búnings­fasinn að bar­daga (e.camp) alltaf þyngri og þyngri. Skrokkurinn er ekkert að yngjast. Ég hef verið að berjast sem at­vinnu­maður síðan árið 2007. Ferillinn er orðinn langur. Þótt að ég sé búin að halda mér nokkuð ferskum og æfa skyn­sam­lega og svo­leiðis þarf maður á ein­hverjum tíma­punkti að fara gera eitt­hvað annað.“

Gunnar Nelsonhefur verið lengi aðvísir/getty

Búinn að halda sér heitum

Eins og fyrr sagði hefur Gunnar verið til­búinn í nokkra mánuði til þess að taka á sig bar­daga og staðan á honum er því mjög góð.

„Ég hef verið að halda mér heitum og er til­búinn í að setja í næsta gír. Það er það sem við höfum verið að gera núna og mér líður mjög vel með það. Skrokkurinn og allt tekur mjög vel við sér. Ég er að fara út á fimmtu­daginn og verð að öllum líkindum úti alveg fram að bar­daga. Ég byrja á því að fara til Skot­lands í stutt stopp, fer síðan til Króatíu og þaðan til Dublin á Ír­landi“

Gunnar Nelson pakkaði Barberena saman í O2 ArenaVísir/Getty

Hver er hugsunin á bak við það að fara halda er­lendis fram að bar­daga?

„Þar erum við meðal annars að hugsa um æfingafélaga. Það er alltaf gott að fara út fyrir þæginda­rammann og fá nýja æfingafélaga. Síðan er striking-þjálfarinn minn í Króatíu, MMA-þjálfarinn minn John Kavanagh í Dublin. Ég hef alltaf farið út fyrir bar­daga. Það setur mig í gírinn og þar finn ég meira úr­val af æfingafélögum í kringum mína þyngd, at­vinnu­menn í MMA og svo­leiðis.“

Og Gunnar er bjartsýnn á góðan árangur gegn Holland.

„Ég sé fyrir mér skemmti­leg fléttu til að byrja með standandi. Ég er svolítið spenntur fyrir því að sjá hvernig við förum að því. Ég er með mínar hug­myndir og síðan finnst mér nú lík­legt að þetta endi niðri og þá reynir maður náttúru­lega að vefja höndunum utan um hálsinn á honum.“

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×