Haukur náði sér ekki á strik á nýafstöðnu stórmóti þar sem að Ísland féll úr leik í milliriðlum.
Selfyssingurinn knái, sem hefur þurft að glíma við dágóðan skerf af erfiðum meiðslum á sínum ferli, er leikmaður Dinamo Búkarest í Rúmeníu en þangað koma hann frá stórliði Kielce í Póllandi. Skref sem mætti telja sem skref niður á við.
Snorri hefur ekki teljandi áhyggjur af stöðu Hauks en segir hann þó þurfa að finna sér lið í betri deild ætli hann sér að taka næsta skref. Hins vegar sé það einföldun að klína tilþrifalítilli frammistöðu Hauks á nýafstöðnu stórmóti á það eitt að hann spili félagsliðabolta í Rúmeníu.
„Haukur er frábær handboltamaður. Einn okkar allra besti,“ segir Snorri Steinn, landsliðsþjálfari. „Með handbolta greind sem fáir hafa. Hann hefur náttúrulega glímt við gríðarlega mikið af meiðslum og var í erfiðri stöðu í Póllandi. Lendir ítrekað í erfiðum meiðslum, er að reyna koma sér í gegnum það. Ég held að það hafi verið hollt fyrir hann að losa sig úr því umhverfi en á sama tíma held ég að hann þurfi að koma sér í betri deild. Ég held að hann viti það manna best sjálfur að hann þarf að spila í topp þrír deild í heiminum og spila þar reglulega, helst vörn og sókn, ef hann ætlar að taka næsta skref.
Honum til varnar hefur hann kannski verið, hjá mér í landsliðinu, númer tvö og þrjú í sinni stöðu. Bæði í skyttu og á miðju. Það er líka erfitt hlutverk. Erfitt hlutverk fyrir alla, hvort sem um ræðir Hauk eða einhvern annan. Hann hefur þó gert það vel, fagmannlega og ég hef ekki yfir neinu að kvarta þó svo að núna hafi hann kannski ekki náð sér á strik. Það er einföldun að klína því líka bara á það að hann sé í Rúmeníu. Það er mitt að ná því út úr honum og gefa honum kannski stærra hlutverk en menn verða líka að negla það þegar svo ber undir.“