Handbolti

Haukur sé einn okkar allra besti en þurfi stærra lið í stærri deild

Aron Guðmundsson skrifar
Haukur Þrastarson, leikmaður íslenska landsliðsins og Dinamo Búkarest
Haukur Þrastarson, leikmaður íslenska landsliðsins og Dinamo Búkarest Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Snorri Steinn Guðjóns­son, lands­liðsþjálfari Ís­lands í hand­bolta, segir lands­liðs­manninn Hauk Þrastar­son þurfa að finna sér lið í betri deild ætli hann sér að taka næsta skref á ferlinum.

Haukur náði sér ekki á strik á nýaf­stöðnu stór­móti þar sem að Ís­land féll úr leik í milli­riðlum.

Sel­fyssingurinn knái, sem hefur þurft að glíma við dágóðan skerf af erfiðum meiðslum á sínum ferli, er leik­maður Dina­mo Búkarest í Rú­meníu en þangað koma hann frá stór­liði Ki­elce í Póllandi. Skref sem mætti telja sem skref niður á við.

Snorri hefur ekki teljandi áhyggjur af stöðu Hauks en segir hann þó þurfa að finna sér lið í betri deild ætli hann sér að taka næsta skref. Hins vegar sé það ein­földun að klína til­þrifalítilli frammistöðu Hauks á nýaf­stöðnu stór­móti á það eitt að hann spili félagsliða­bolta í Rú­meníu.

Klippa: Snorri um Hauk: „Held hann viti það manna best sjálfur“

„Haukur er frábær hand­bolta­maður. Einn okkar allra besti,“ segir Snorri Steinn, lands­liðsþjálfari. „Með hand­bolta greind sem fáir hafa. Hann hefur náttúru­lega glímt við gríðar­lega mikið af meiðslum og var í erfiðri stöðu í Póllandi. Lendir ítrekað í erfiðum meiðslum, er að reyna koma sér í gegnum það. Ég held að það hafi verið hollt fyrir hann að losa sig úr því um­hverfi en á sama tíma held ég að hann þurfi að koma sér í betri deild. Ég held að hann viti það manna best sjálfur að hann þarf að spila í topp þrír deild í heiminum og spila þar reglu­lega, helst vörn og sókn, ef hann ætlar að taka næsta skref.

Honum til varnar hefur hann kannski verið, hjá mér í lands­liðinu, nú­mer tvö og þrjú í sinni stöðu. Bæði í skyttu og á miðju. Það er líka erfitt hlut­verk. Erfitt hlut­verk fyrir alla, hvort sem um ræðir Hauk eða ein­hvern annan. Hann hefur þó gert það vel, fag­mann­lega og ég hef ekki yfir neinu að kvarta þó svo að núna hafi hann kannski ekki náð sér á strik. Það er ein­földun að klína því líka bara á það að hann sé í Rú­meníu. Það er mitt að ná því út úr honum og gefa honum kannski stærra hlut­verk en menn verða líka að negla það þegar svo ber undir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×