Körfubolti

Deildar­meistara­titillinn undir í kvöld: Dagur Sig á skjá og Dúllu­bar opinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson hjá Tindastóli og Ægir Þór Steinarsson hjá Stjörnunni verða eflaust í aðalhlutverki í leiknum í kvöld.
Sigtryggur Arnar Björnsson hjá Tindastóli og Ægir Þór Steinarsson hjá Stjörnunni verða eflaust í aðalhlutverki í leiknum í kvöld. Vísir/Anton Birnk/Jón Gautur

Tvö efstu lið Bónus deildar karla í körfubolta mætast í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ í kvöld. Þetta eru tvö efstu lið deildarinnar og þetta er því hálfgerður úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn.

Stjörnumenn eru með tveggja stiga forystu á Tindastól þegar lítið er eftir af deildarkeppninni en Stólarnir unnu fyrri leik liðanna með fimm stigum á Króknum.

Liðið sem vinnur leikinn í kvöld mun sitja á eftir í toppsæti deildarinnar

Stjörnumenn gætu með sex stiga sigri farið langt með að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og heimavallarréttinn úr úrslitakeppnina.

Stjarnan væri þá með fjögurra stiga forskot á Stólana og auki með betri stöðu í innbyrðis leikjum.

Vinni Stólarnir þá eru þeir í lykilstöðu enda sjálfir þá með betri innbyrðis stöðu. Tindastóll með heimavallarrétt út úrslitakeppnina er eitthvað sem mörg lið í deildinni hræðast.

Tindastólsliðið þarf þá að gera sem engu liði hefur tekist í vetur sem er að vinna Stjörnuliðið i Umhyggjuhöllinni. Stjarnan hefur unnið alla átta heimaleiki sína til þessa.

Það er búist við góðri mætingu í kvöld enda toppslagur þar sem deildarmeistaratitillinn er undir.

Stjörnumenn ætla líka að bjóða upp á góða umgjörð svona til að hita aðeins upp fyrir fjörið í úrslitakeppninni.

Dúllubarinn verður opinn frá 17:00 og úrslitaleikurinn á HM í handbolta verður á skjánum. Þar er náttúrulega Íslendingurinn Dagur Sigurðsson að reyna að gera Króata að heimsmeisturum. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 19.15.

Úlfur Úlfur mun hitar upp stemninguna en Stólarnir kunnu örugglega sérstaklega vel að meta það.

Justin Shouse sér síðan um veitingar fyrir leik af sinni alkunnu snilld.

Fyrir þá sem komast ekki þá verður leikurinn að sjálfsögðu sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 19.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×