Innlent

Við­ræður á við­kvæmu stigi og fjöl­miðla­fólki hent út

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu sem SÍS samþykktu en kennarar hafa ekki enn tekið afstöðu til.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu sem SÍS samþykktu en kennarar hafa ekki enn tekið afstöðu til. Vísir/Vilhelm

Kjaraviðræður milli kennara og ríkis og sveitarfélaga eru á viðkvæmu stigi. Kennarar höfðu til klukkan 13 í dag til að taka afstöðu til innanhústillögu ríkissáttasemjara en sú afstaða liggur ekki enn fyrir. Fréttamönnum var vísað út úr Karphúsinu um tvöleytið.

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari lagði á fimmtudag fram innanhústillögu í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga. Tillagan var ígildi kjarasamnings sem tryggði innágreiðslu á virðismat á störfum kennara auk sömu launahækkana og samið hefur verið um í almennum kjarasamningum.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) samþykkti innanhússtillöguna í gær og hafði Kennarasamband Íslands til klukkan 13 í dag til að taka afstöðu til tillögunnar. Fréttamaður Stöðvar 2 ræddi við Ingu Rún Ólafsdóttur, formann samninganefndar SÍS, um eittleytið og vonaðist hún þá eftir því að kennarar myndu fallast á tillöguna.

Samninganefndirnar fóru síðan inn til fundar með ríkissáttasemjara á meðan fréttamenn biðu fyrir utan. Rétt upp úr 14 voru fjölmiðlar beðnir um að yfirgefa húsið og ýjað að því að viðræður væru á viðkvæmu stigi.

Fari svo að kennarar hafni innanhústillögunni munu kennarar í sjö grunnskólum og fjórtán leikskólum fara í verkfall. Í fréttinni hér að neðan má lesa nánar um fyrirhuguð verkföll kennara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×