Þingmönnum bæði Verkamannaflokks Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra, og Miðflokksins hefur verið sagt að vera tilbúnir fyrir skyndifundi í dag og í kvöld fyrir utan þingflokksfundi sem eiga að fara fram um miðjan dag, að sögn norska ríkisútvarpsins.
Deilurnar á milli flokkanna tveggja snúast um innleiðingu á þremur tilskipunum Evrópusambandsins sem eru hluti af svonefndum fjórða orkupakka þess. Verkamannaflokkurinn vill innleiða þá strax í anda góðs Evrópusamstarfs. Það vill Miðflokkurinn ekki sjá þar sem hann er á móti nánara samstarfi við ESB.
Rafmagnsverð hefur verið í hæstu hæðum í Noregi að undanförnu og eru orkumál efst á baugi í norskum stjórnmálum. Bæði Verkamannaflokkurinn og Miðflokkurinn hafa sagst vilja hætta að flytja út rafmagn til Danmerkur þegar samningur um útflutninginn rennur út á næsta ári. Miðflokkurinn er meðal annars á móti fjórða orkupakkanm þar sem hann segir tilskipanirnar skapa enn frekari óvissu á raforkumarkaði.
Hugsanlegt er talið að Miðflokkurinn gangi út úr ríkisstjórninni. Norska ríkisútvarpið segir að þá stæði eftir minnihlutastjórn Verkamannaflokksins sem væri langt frá meirihluta á þingi. Slík stjórn þyrfti að reiða sig á stuðning nokkurra flokka til þess að koma málum í gegnum.
Þingkosningar eiga að fara fram í Noregi í september.