Erlent

76 látnir eftir elds­voðann í Tyrk­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Eldurinn kom upp um klukkan hálf þrjú að staðartíma, aðfararnótt gærdagsins.
Eldurinn kom upp um klukkan hálf þrjú að staðartíma, aðfararnótt gærdagsins. AP

Tala látinna eftir brunann á skíðahótelinu í Tyrklandi aðfararnótt gærdagsins hefur hækkað og eru nú 76 taldir hafa látist og eru um fímmtíu slasaðir. Tyrklandsforseti hefur lýst yfir þjóðarsorg vegna málsins.

Eldsvoðinn kom upp á veitingastað hins tólf hæða hotels Grand Kartal í skíðabænum Kartalkaya í norðvesturhluta Tyrklands skömmu fyrir hálf fjögur aðfararnótt þriðjudagsins.

„Sársauki okkar er mikill,“ sagði innanríkisráðherrann Ali Yerikaya við fréttamenn á vettvangi. Ráðherrann segir að búið sé að bera kennsl á 52 hinna látnu og er unnið að því að bera kennsl fleiri.

Gestir á hótelinu voru 238 talsins þegar eldurinn kom upp og var það nærri fullbókað, en 161 herbergi er á hótelinu. Vetrarfrí er nú í skólum í Tyrklandi og leggja þá margir leið sína í skíðaferðir.

Tyrkneskir fjölmiðlar segja að margir gestanna hafi látist eftir að hafa stokkið út um glugga á brennandi húsinu á meðan aðrir hafi notast við lök og lín til að klifra niður.

AP

Á myndum mátti sjá mikinn eld og reyk leggja frá efstu hæðum hússins en eldurinn læstist í viðarklæðningu sem er talin hafa flýtt fyrir útbreiðslu eldsins.

Dómsmálaráðherrann Yilmaz Tunc segir að sex saksóknurum hafi verið falið að rannsaka málið og upptök eldsins. Níu manns hafa þegar verið handteknir vegna málsins.

Ráðherra ferðamála, Nuri Ersoy, segir að tveir brunaútgangar hafi verið á hótelinu sem hafi staðist brunavarnarúttekt á síðasta ári. Einhverjir gestir á hótelinu, sem komust lífs af, segja að þeir hafi ekki orðið varir við að brunabjöllur hafi ekki farið í gang eftir að eldurinn kom upp.

AP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×