Einhver ónefndur aðili hafði tekið sig til og límt miðana upp og þakið innganginn en ástæðan er sú að íslenska landsliðið í handknattleik keppir með merki Rapyd á brjóstkassanum.
Þegar Vísir setti sig í samband við ÍSÍ til að grennslast fyrir um málið varð Kristín Ásbjörnsdóttir fyrir svörum. „Mér dauðbrá þegar ég mætti í vinnuna í gær. Já, það var mikið verk að skrapa þetta af en það er búið.“
Sérstök tilkynning fylgir límmiðunum svohljóðandi:
„Við krefjumst þess að HSÍ hætti tafarlaust þátttöku í hvítþvotti Ísrael á þjóðarmorði, hernámi, kúgun og aðskilnaðarstefnu sinni í Palestínu. Þetta gerir HSÍ með því að taka við peningum frá fyrirtækinu Rapyd sem styður þjóðarmorðið með beinum hætti. HSÍ er ekki stætt á því þar sem það starfar í nafni þjóðarinnar allrar.“
Talsvert var fjallað um þessa umdeildu styrktaraðila HSÍ í fyrra en þá mótmæltu til að mynda Guðmundur Guðmundsson fyrrverandi þjálfari landsliðsins og Bubbi Morthens tónlistarmaður því harðlega að íslenska liðið væri „sponsað“ af Arnarlaxi. Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður, sem hefur fjallað talsvert um fyrirtækið Raypid, skrifaði einnig greinar um málið; hann telur til háborinnar skammar að HSÍ skuli vera með Rapid sem styrktaraðila.
Þegar loks náðist í formann HSÍ, Guðmund B. Ólafsson, vegna málsins sagði hann rekstrarstöðu HSÍ erfiða og umræðuna broslega og skakka.
„Hún var bara svo hrikalega skökk. Það fólk sem var að tala um þetta vissi náttúrulega bara ekkert hvað það var að tala um. Við erum bara í íþróttastarfi. Þegar að það eru öflug og stór fyrirtæki sem eru tilbúin að styðja okkur og vera í samstarfi við okkur, þá að sjálfsögðu vinnum við með þeim. Þetta eru stoltir samstarfsaðilar okkar,“ sagði Guðmundur þá.