Viðskipti innlent

Bjarni hættir hjá Sam­tökum sunn­lenskra sveitar­fé­laga

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Guðmundsson var ráðinn framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga árið 2014.
Bjarni Guðmundsson var ráðinn framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga árið 2014. SASS

Stjórn Sambands sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Bjarni Guðmundsson framkvæmdstjóri hafa komist að samkomulagi um starfslok hans hjá samtökunum.

Bjarni, sem hefur verið framkvæmdastjóri SASS í tíu ár, hefur þegar látið af störfum.

Þetta kemur fram á vef samtakanna. Bjarni tók við stöðunni árið 2014 en hann hafði þá gegnt stöðu framkvæmdastjóra þróunar hjá RÚV frá árinu 2007.

Haft er eftir Bjarna að hann sé þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að byggja upp samtök sveitarfélaga á Suðurlandi sem sinni mikilvægu hlutverki í byggðaþróun.

„Ég er stoltur af þeim árangri sem samtökin hafa náð í þessum grósku- og kraftmikla landshluta. Framtíðin er svo sannarlega björt fyrir Sunnlendinga og tækifærin fjölbreytileg í atvinnumálum, listum og menningu,“ segir Bjarni. „Góður árangur við að gæta hagsmuna sveitarfélaga og íbúa Suðurlands, sem hefur stuðlað að jákvæðri byggðaþróun, hefði ekki náðst nema með samhentu átaki allra. Ég þakka starfsfólki og stjórnarmönnum SASS, kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum, íbúum og forráðamönnum fyrirtækja fyrir samstarfið á liðnum árum.“

Þá ef haft eftir Antoni Kára Halldórssyni, stjórnarformanni SASS, að stjórn þakki Bjarna fyrir framlag hans við að styrkja stoðir atvinnu- og mannlífs á Suðurlandi og óski honum velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×