Grindavík er sex þátta heimildaþáttaröð úr smiðju Stöðvar 2 Sports um jarðhræringarnar í Reykjanesi og körfuboltalið Grindavíkur.
Annar þátturinn var á dagskránni í gærkvöldi. 10. nóvember 2023 reynist örlagadagur í sögu Grindvíkinga sem neyðast til að rýma bæinn sinn og gerast flóttamenn í eigin landi. Körfuboltalið bæjarins heldur áfram að keppa og verður að sameiningartákni bæjarbúa.
Garðar Örn Arnarson leikstýrir þáttunum en myndataka er í höndum Sigurðar Más Davíðssonar.
Í þessum þætti númer tvö af sex var meðal annars viðtal við grindvíska sjómanninn Gauta Dagbjartsson en hann hefur komið mikið við sögu á bak við tjöldin hjá íþróttafélögum bæjarins í gegnum tíðina.
Viðtalið við Gauta var tekið um borð í báti hans á meðan það gaus á sama tíma rétt við Grindavík.
„Vonandi flyt ég heim til Grindavíkur áður en ég dey og ef ekki þá dey ég bara einhvers staðar annars staðar,“ sagði Gauti í þessum miðjum veiðitúr fyrir utan Grindavík.
„Ég sé þetta svona fyrir mér,“ sagði Gauti.
„Við vitum ekkert hvað verður. Framtíðin er bara tiltölulega óljós. Það er eitt sem er algjörlega hundrað prósent. Það er að við verðum alltaf Grindvíkingar, sama hvar við endum. Við erum bara Grindvíkingar. Stoltir,“ sagði Gauti.
Það má sjá þetta brot úr þættinum hér fyrir neðan.