Góð mæting var í messuna en sóknarprestur kirkjunnar, séra Óskar Hafsteinn Óskarsson sá um guðsþjónustuna og kirkjukór Hrunaprestakalls sá um sönginn.
Eftir messuna var öllum boðið í safnaðarheimili kirkjunnar þar sem karlarnir í kórnum voru klárir með grjónagraut og slátur fyrir alla og kaffi og súkkulaði á eftir.
„Þetta er frábært framtak og það er eitthvað svo ótrúleg íslenskt og heiðarlegt að byrja árið á grjónagraut og slátri. En eftir hamborgarhrygginn og hangikjötið og allt þetta, allan jólamatinn þá er þetta eitthvað svo ótrúlega kærkomið,” segir Séra Óskar Hafsteinn.
Karlarnir í kirkjukór Hrunaprestakalls sáu um veitingarnar en Sigurður Ágústsson í Birtingaholti er formaður kórsins.
„Við skulum segja að við höfum séð um þetta en við erum flestir vel giftir þannig að það komu kannski einhverjar konur að aðstoða okkur við þetta en við sáum um þetta inn í safnaðarheimilinu að uppfæra og uppvarta í þessu,” segir Sigurður alsæll með daginn og hvað Grautarmessan tókst vel.

Og kirkjugestir kunnu vel að meta veitingarnar og framtakið í Grautarmessunni.
„Þetta er bara frábært, mjög vinsælt allavega, segir Ragnheiður Sif Kristjánsdóttir, messugestur.
„Þetta er bara alveg frábært og þetta er líka bara svo gott samfélag, sem við búum í. Lyfrapylsan var það, sem sló í gegn hjá okkur,” segja þær Elsa Ingjaldsdóttir og Valný Guðmundsdóttir, messugestir.

„Þetta er bara frábært enda er þetta frábært samfélag, sem við búum hérna í,” segir Sigurður Ingi Jóhannsson, messugestur.
Og það var vel við hæfi í nýársmessunni hjá kórnum að enda sönginn í kirkjunni á þjóðsöngnum.
