Erlent

Urðu úti við leit að Stórfæti

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Um sextíu björgunarsveitarmenn tóku þátt í leit að mönnunum tveimur síðustu þrjá daga.
Um sextíu björgunarsveitarmenn tóku þátt í leit að mönnunum tveimur síðustu þrjá daga.

Tveir menn frá Oregon sem voru í leit að Stórfæti í skógi í Washington-ríki fundust látnir í dag eftir að hafa verið saknað frá jóladegi.

Lögreglustjóri Skamania-sýslu greinir frá því í Facebook-færslu að talið sé að mennirnir sem eru 59 og 37 ára hafi orðið úti. Embættið byggir þá ályktun á slæmu veðri, lélegum útbúnaði og skorti á undirbúningi mannanna fyrir ferðina.

Fjölskyldumeðlimur mannanna tilkynnti um eitt eftir miðnætti á jóladag að mennirnir hefðu ekki snúið aftur úr aðfangadagsferð sinni daginn áður. Mennirnir fundust í skógi vöxnu svæði í Gifford Pinchot-þjóðskógi sem er um 240 kílómetra norðaustan við Portland-ríki.

Sextíu sjálfboðaliðar hjálpuðu við þriggja daga leitina að mönnunum og voru þar leitarhópar niðri á jörðinni, hundar og drónar notaðir. Landhelgisgæslan notaði innrauða tækni til að leita að mönnunum úr lofti. Yfirvöld notuðu myndbandsupptökur til að finna bíl mannanna á suðurjaðri þjóðskógarins.

Þyrlusveitir leituðu að mönnunum úr lofti.

Stórfótur ekki enn fundist

Stórfótur er goðsagnakennd vera sem er sögð flakka um skóga Cascadíu-svæðis Bandaríkjanna. Svæðið er gjarnan kallað „The Pacific Northwest“ og nær yfir Washington, Oregon og Idaho auk hluta nágrannaríkja þeirra sem eru öll á norðvesturströnd Bandaríkjanna.

Kvikmyndagerðarmennirnir Roger Patterson og Robert Gimlin sögðust hafa náð Stórfæti á mynd árið 1967 í Norður-Kaliforníu. Myndefnið hefur síðan orðin alræmt og hafa margir reynt að hrekja það eða renna stoðum undir það. Mennirnir tveir héldu því staðfast fram til dauðadags að myndefnið væri ekki falsað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×