Innlent

Að­eins ein flug­vél lent í Kefla­vík í dag

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Myndin er úr safni og er ekki af vélinni sem lenti í dag.
Myndin er úr safni og er ekki af vélinni sem lenti í dag. Vísir/Vilhelm

Búið er að aflýsa flestum flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli vegna veðurs það sem af er degi, og verður staðan endurmetin í kvöld. Aðeins ein flugvél hefur lent á flugvellinum í dag, flugvél frá Play sem lenti rétt fyrir klukkan 14.

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi á Suðurnesjum, þar sem vindhraði hefur mælst 30 m/s, og éljagangur verið á köflum.

Staðgengill upplýsingafulltrúa ISAVIA segir rokið svo mikið að ekki sé hægt að nota ranana, og flugfélögin séu meira og minna búin að aflýsa sínum ferðum.

Hann segir að færri flug hafi verið á áætlun í dag heldur en í gær og á morgun. Dagurinn í dag sé skársti dagurinn hvað það varðar að aflýsa flugferðum.

Engin flugvél fór af stað í morgun og aðeins ein vél hefur lent frá Play í dag. Flugferðunum var öllum aflýst með góðum fyrirvara og samkvæmt upplýsingafulltrúanum sitja fáir, ef einhverjir, á flugvellinum með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×