Við hin þekkjum þetta svo sem líka. Þegar allt í einu við upplifum einhvers konar andleysi varðandi einhver mál.
Jafnvel bara eitt mál.
Hugsum og hugsum og hugsum hvernig best er að leysa úr þannig að ávinningurinn verður meiri en ekkert gerist.
Það einfaldlega kemur engin brilliant lausn til okkar!
Eitt af því sem við getum gert þá, er að boða til fundar þar sem teymið í heild sinni nær að hugsa út fyrir boxið.
Og ná þessum BANG – áhrifum.
Því stundum er andleysi einfaldlega góð leið til að draga fram nýjar, ferskar og jafnvel öðruvísi hugmyndir.
Að boða teymið í hugmyndavinnu getur verið fastur og skemmtilegur liður innan vinnustaða.
Og algjör óþarfi að spara þessa leið fyrir stóru stefnumótunardagana eða aðra stærri viðburði.
Stundum geta jafnvel lítil mál orðið að einhverju stóru og frábæru, vegna þess að þeim er gefinn gaumur.
Hér er dæmi um einfalda leið til að nýta oftar þessa aðferð að hugsa út fyrir boxið og fá nýjar og ferskar hugmyndir eða sjónarhorn með hinum svo kölluðu hugmyndavinnufundum.
Fundirnir þurfa alls ekki að vera langir.
#1 Skref: „Autt blað“ fundur - hugmyndavinna (e. blank page meeting)
Á fundinum eru allir upplýstir um hvað er verið er að fara að taka fyrir. Dæmi: Leiðir til að auka sölu, leiðir til að gera hópavinnu skilvirkari og svo framvegis.
Allir eru beðnir um að skrifa niður einhvers konar mælanlegt markmið sem snýr að fundarefninu.
Hér er ekki verið að tala um hvernig á að ná þessu markmiði, aðeins því sem viðkomandi sér fyrir sér að væri gott markmið að ná. Eða hver væri óska-staðan.
#2: Allt er mögulegt!
Næst er það hugmyndavinnan. Þessi brain-storm aðferð sem gengur út á að allir í hópnum kasta fram hugmyndum um hvernig er hægt að ná þessu markmiði. Þar sem allt er mögulegt!
Hér er ekki verið að tala um að búið sé að ákveða hvaða markmið eigi að vinna sérstaklega að eða hvaða leið er betri en önnur.
Heldur fyrst og fremst verið að kalla fram allar mögulegar leiðir og hugmyndir. Ekki síst þær sem fá okkur til að hugsa út fyrir boxið.
Gott er að skrifa á töflu þær hugmyndir sem eru að koma fram.
#3: Flokkunin
Næst ætlar hópurinn að horfa á allar frábæru hugmyndirnar sem eru komnar á töfluna og velja nokkrar sem hópurinn í heild sinni telur þær allra bestu.
Gott er að kalla fram umræðu um bestu hugmyndir annarra, frekar en að tala um hvers vegna okkar eigin hugmynd er svona góð. Því á þessu stigi viljum við ná að flokka bestu hugmyndirnar, en viljum forðast að fólk fara ósjálfrátt að reyna að koma sínu sem best að.
#4: Hvernig hvernig?
Þegar nokkrar tillögur um leiðir hafa verið valdar, er haldið áfram að ræða þær sérstaklega.
En í þetta sinn þurfum við að ræða Hvernig við ætlum að nálgast eða ná fram því besta í hverri leið. Hver á nálgunin að vera? Hverjar eru áherslurnar? Er lokamarkmiðinu ekki örugglega alltaf náð? (mælanlega)
#5: Sigurleiðin
Loks sammælist hópurinn um þá leið sem hugmyndavinnan er að skila af sér sem sigurvegara fundarins: Leiðin sem ákveðið er að fara, nýja hugmyndin sem ákveðið er að vinna út frá og svo framvegis.