Mannréttindasamtök segja ódæðið hafa byrjað í hverfinu á föstudaginn og mun það hafa beinst sérstaklega að eldra fólki sem grunað er um að hafa stundað vúdú. New York Times hefur þetta eftir forsvarsmönnum nokkurra mannréttindasamtaka frá Haítí.
Íbúar Haítí hafa staðið fyrir mikilli vargöld á undanförnum árum og hafa hömlulausir glæpamenn myrt fjölmarga og framið fjölda ofbeldisbrota. Gengi stjórna til að mynda nær allri höfuðborginni.
Sjá einnig: Vargöldin á Haítí versnar hratt
Forsvarsmenn áðurnefndra mannréttindasamtaka segja Monel Felix, sem leiðir eitt af glæpagengjum Haítí, hafa skipað mönnum sínum að finna nornir og galdrakarla og myrða þau. Var það eftir að prestur sagði honum að veikindi sonar hans væru göldrum að kenna. Barnið dó á laugardagskvöldið.
Að minnsta kosti sextíu manns voru myrtir með sveðjum og hnífum á föstudaginn. Á laugardaginn voru svo fimmtíu myrtir til viðbótar. Langflest fórnarlömbin voru eldri en sextíu ára.
Ungt fólk var líka myrt og í þeim tilfellum voru flestir að reyna að aðstoða eldra fólk sem myrt var af glæpamönnunum. Mörg lík voru brennd út á götu og þykir líklegt að tala látinna muni hækka.
Blaðamaður NYT ræddi við íbúa í hverfinu sem staðfesti að morðin hefðu byrjað á föstudagskvöld og beinst að fólki sem átti að leggja stund á vúdú. Í einhverjum tilfellum voru fimm til sex myrtir á heimili.
Vúdú er í raun trúarbrögð sem fylgdi þrælum frá Afríku til Haítí. Nánar má lesa um vúdú hér á Vísindavefnum.
Talið er að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Felix skipar glæpamönnum undi hans stjórn að myrða eldra fólk sem talið er stunda vúdú.