Lögreglumennirnir Garðar Már og Frímann Birgir voru að fljúga dróna yfir ánna meira og minna í dag til að geta fylgst með þróun mála og stöðu árinnar. Lögreglan er með þessi skilaboð til fólks:
„Það er náttúrulega fyrst og fremst að fara alls ekki út á ísinn og ef það verður vart við einhverjar hreyfingar að þá frekar að bakka frá og gæta varúðar, ekki fara of nálægt,“ segir Garðar Már.
Óttast um grenitréð á Jórukletti
Sveitarfélagið Árborg er með sérstaka viðbragðsnefnd vegna ástandsins, sem eru í góðu sambandi við Almannavarnanefnd á svæðinu. Bæjarstjórinn segir ánna mjög tignarlega í þessu ástandi en á sama tími mjög hættulega.
„Þetta er alveg ótrúlegt og maður hefur heyrt það á elstu mönnum hér á svæðinu að þetta sé með því mesta sem hefur verið í ánni,” segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri í Árborg.
Hverju spáir þú með framhaldið?
„Vonandi heldur hún sér bara svona. Við sjáum það allavega núna í dag þá hefur hún lækkað frá því í gær en vonandi helst það bara þannig að hún hreinsi sig reglulega og við getum frekar fengið að njóta en um leið vekur maður athygli á að fólk fari varlega hérna við bakkann eins og við þurfum að gera alltaf,” bætir Bragi við.

Bæjarbúar á Selfossi, þeir hafi margir áhyggjur af grenitrénu í Jórukletti í miðri Ölfusá, lifir það af þessar hremmingar í ánni eða hvað?
„Já, skiljanlega, það fór mjög nálægt brúninni þar í gær en maður sér að það hefur lækkað aðeins í dag. Tréð hefur staðið af sér ýmislegt hingað til og við vonum að það standi áfram,” segir Bragi bæjarstjóri.