Það eru talsverðar breytingar gerðar á milli ára en allt byrjar þetta eins og vanalega með opna hlutanum sem fer fram frá 27. febrúar til 17. mars næstkomandi.
Framhaldið er aftur á móti allt öðruvísi en það var á þessu ári. Keppnisdagatalið hefur tekið stanslausum breytingum síðustu ár og forráðamenn CrossFit samtakanna halda í þá undarlegu hefð.
Nú er búið að henda út fjórðungsúrslitunum og að þessu sinni verða undanúrslitin haldin á CrossFit stöðvunum sjálfum þar sem fullgildir dómarar munu sjá um að meta það að farið sé eftir öllum settum reglum.
Eitt prósent þeirra sem skrá sig á The Open komast áfram í undanúrslitin.
Það verða síðan haldin sérstök undanúrslitamót þar sem keppendur geta tryggt sig inn á heimsleikana. Þessi mót fara fram frá apríl fram í júní.
Það komast síðan bara þrjátíu karlar og þrjátíu konur á heimsleikana á næsta ári. Þetta er 25 prósent fækkun á keppendum frá því á þessu ári þegar fjörutíu karlar og fjörutíu konur kepptu um heimsmeistaratitilinn.
Það verður því enn erfiðara að komast á heimsleikana á næsta ári.
Liðunum verður einnig fækkað úr þrjátíu niður í tuttugu. Í fyrra var ein stærsta breytingin að aldursflokkunum og fötlunarflokkunum var hent út af leikunum en þau þurfa áfram að keppa um sína titla á sérmótum.
Ísland átti bara einn fulltrúa í keppni karla og engan fulltrúa í keppni kvenna á heimsleikunum í ár. Það er mun færra en síðustu ár og það þóttu tímamót að engin dóttir var með á heimsleikunum 2024.
Þessi breyting á keppnisfyrirkomulaginu er ekki að hjálpa mikið til við að breyta því á komandi ári en auðvitað vonumst við til að okkar besta CrossFit fólk eigi gott ár 2025 og að sem flest komist á heimsleikana næsta haust.