Handbolti

Reynslu­bolti skilin eftir heima: „Niður­brotin“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Toft var með danska landsliðinu á ÓL í París og er búin að vera með á öllum Evrópumótum frá 2014.
Sandra Toft var með danska landsliðinu á ÓL í París og er búin að vera með á öllum Evrópumótum frá 2014. Getty/Alex Davidson

Danski markvörðurinn Sandra Toft verður óvænt ekki með danska landsliðinu á Evrópumótinu í handbolta sem hefst seinna í þessum mánuði. Hún komst ekki í lokahópinn.

„Ég var ótrúlega leið yfir þessu. Þú getur svo sannarlega notað orðið niðurbrotin. Ég held að liðfélagarnir mínir hér [Í Györ í Ungverjalandi] geti vottað um það. Það mun taka sinn tíma fyrir mig að ná sér aftur upp úr þessu,“ sagði Sandra Toft við TV2.

Hún hefur tekið þátt í þrettán stórmótum með danska landsliðinu og ekki misst af Evrópumóti síðan 2014.

Landsliðsþjálfarinn Jesper Jensen sagði að það hafi verið erfið og tilfinningarík ákvörðun að skilja hana eftir heima. Hann sagði líka að hann hafi átt mun skemmtilegri samtöl en það þegar hann hringdi í markvörðinn og sagði henni frá þessu.

„Ég verð að bera virðingu fyrir erfiðum ákvörðunum og ég veit að þetta var ein slík. Ég ber líka mikla virðingu fyrir þeim markvörðum sem voru valdar í hópinn,“ sagði Toft.

Markverðirnir sem voru valdar voru Althea Reinhardt, 28 ára markvörður Odense Håndbold og Anna Kristensen, 24 ára markvörður Denmark Team Esbjerg.

Toft er orðin 35 ára gömul en hún hefur þrisvar verið valin besti markvörður á stórmóti, á HM 2021 og á EM 2016 og 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×