Erlent

Musk settur í niður­skurðinn og sjón­varps­maður verður varnar­mála­ráð­herra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tilnefningar Trump hafa vakið nokkurn ugg vestanhafs um næstu fjögur ár.
Tilnefningar Trump hafa vakið nokkurn ugg vestanhafs um næstu fjögur ár.

Donald Trump, fyrrverandi og verðandi forseti Bandaríkjanna, heldur áfram að vekja ugg með útnefningum sínum í hin ýmsu embætti en hann tilkynnti í gær að Pete Hegseth, sjónvarpsmaður hjá Fox News, yrði næsti varnarmálaráðherra landsins.

Samkvæmt CNN er Hegseth fyrrverandi hermaður en skortir þá áratugareynslu af hermálum sem forsetar hafa venjulega horft til við útnefningar sínar í mikilvæg embætti.

Trump greindi einnig frá því í gær að Kristi Noem, ríkisstjóri Suður-Dakóta yrði ráðherra öryggismála innanlands en Noem hefur enga reynslu á þessu sviði. Hún hefur hins vegar verið ötull stuðnignsmaður Trump og nýtur mikilla vinsælda innan MAGA-hreyfingarinnar.

Þá verður Mike Huckabee sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael en ríkisstjórinn fyrrverandi lét eitt sinn þau orð falla að það væri ekkert til sem héti „Palestínumaður“.

Musk settur í að minnka báknið

Sú ákvörðun Trump sem hefur vakið mesta athygli er þó án efa útnefning hans á athafnamanninum Elon Musk sem sérstaks ráðgjafa um niðurskurð og sparnað innan stjórnkerfisins. 

Musk og Vivek Ramaswamy, annar litríkur efnamaður, munu fara fyrir fyrirbæri sem Trump hefur kosið að kalla „Department of Government Efficiency“ en athygli vekur að ekki verður um opinbera stofnun að ræða og Musk og Ramaswamy því ekki þurfa að hlíta reglum um opinbera starfsmenn.

Ákvörðunin hefur vakið áhyggjur af því að Musk muni nýta stöðu sína til að brjóta niður það regluverk sem hefur verið sett upp í kringum ýmsa starfsemi sem hann og aðrir tæknijöfrar reka og draga stórlega úr eftirliti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×