Fótbolti

Freyr segir um­mæli sín tekin úr sam­hengi

Aron Guðmundsson skrifar
Freyr Alexandersson þjálfari KV Kortrijk
Freyr Alexandersson þjálfari KV Kortrijk Vísir/Getty

Freyr Alexanders­son, þjálfari KV Kortrijk í Belgíu segir að um­mæli sín um mark­vörðinn Mads Kik­ken­borg, sem hann þjálfaði á sínum tíma hjá danska félaginu Lyng­by, hafi verið tekin úr sam­hengi en sá síðar­nefndi skipti yfir til Ander­lecht í Belgíu í upp­hafi árs. Freyr segir sam­band sitt og Kik­ken­borg mjög gott.

Eftir að Freyr hafði tekið við þjálfarastöðunni hjá belgíska úr­vals­deildar­félaginu KV Kortrijk ákvað Kik­ken­borg að söðla um og semja við Ander­lecht sem einnig leikur í efstu deild Belgíu. Kik­ken­borg hafði verið að standa sig vel hjá Lyng­by fram að þeim félags­skiptum og var eftir­sóttur en í viðtali við belgíska miðilinn Het Nieuws­blad var haft eftir Frey að hann teldi að danski mark­vörðurinn myndi aldrei spila leik fyrir Ander­lecht.

Tækifærin fyrir Danann hjá Ander­lecht hafa frá félags­skiptunum verið af skornum skammti. Þar hefur hann verið á eftir fyrir­liða liðsins, Colin Coosemans, í goggunarröðinni. Kik­ken­borg lék þó sinn fyrsta leik fyrir Ander­lecht á dögunum í belgíska bikarnum og hafði blaðamaður Tips­bladet sam­band við Frey í kjölfar þess leiks og spurði Ís­lendinginn út í um­mæli hans á sínum tíma um Kik­ken­borg. Freyr segir um­mæli sín hafa verið tekin úr sam­hengi.

Mads Kikkenborg lék sinn fyrsta leik fyrir Anderlecht á dögunumVísir/Getty

„Og síðan þá hefur þetta mál dúkkað upp í fjölmiðlum aftur og aftur,“ segir Freyr í sam­tali við Tips­bladet. „Ég sagði að ég teldi Kik­ken­borg ekki eiga sér framtíð hjá Ander­lecht. Ég tel að hann hafi verið fenginn til Ander­lecht sem vara­mark­vörður og það hvernig Ander­lecht vill spila fót­bolta spilar kannski ekki inn á styrk­leika Kik­ken­borg. Tíminn mun leiða það í ljós hvort hann spilar eða ekki.“

Freyr er hins vegar hrifinn af Kik­ken­borg.

„Hann á að setja pressuna á Colin Coosemans sem hefur verið besti mark­vörður deildarinnar yfir lengri tíma að mínu mati. Það er erfitt fyrir Kik­ken­borg að brjóta sér leið inn í byrjunar­liðið en þannig er fót­boltinn stundum. Coosemans gæti meiðst í næstu viku og þá mun Kik­ken­borg fá tækifærið. Á því liggur enginn vafi. Ég vona að hann fái tækifæri til þess að sanna sig á ein­hverjum tíma­punkti. En ég óttast þó einnig að, ef eitt­hvað gerist sem veldur því að Coosemans mun ekki geta spilað, að þá muni Ander­lecht sækja annan mark­vörð sem er ekki með sömu eigin­leika og Kik­ken­borg.

Ég óska Kik­ken­borg alls hins besta. Ég er kannski hans mesti aðdáandi. Eða kannski er það fjöl­skylda hans. Mér þykir vænt um hann og hann veit það. Við eigum gott sam­band okkar á milli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×