Þetta herma heimildir fréttastofu og sömuleiðis að Dagur hafi ekki sóst eftir forystusæti á listanum. Uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík mun kynna tillögur sína að listum fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö á allsherjarfundi Samfylkingarfélaganna í Reykjavík í Þróttaraheimilinu klukkan 11 á morgun.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, mun samkvæmt heimildum skipa efsta sætið í sama kjördæmi og Dagur, það er Reykjavíkurkjördæmi norður, og að Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður skipi efsta sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þá mun Ragna Sigurðardóttir, læknir og varaþingmaður, skipa annað sætið á eftir Jóhanni Páli.
Ragna hefur þegar greint frá því á Facebook að hún muni skipa annað sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og fyrrverandi forseti ASÍ, greindi frá því í færslu á Facebook skömmu fyrir klukkan 14 að hann myndi skipa þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.
Kristrún leiddi lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningunum 2021 og Helga Vala Helgadóttir lögmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður. Helga Vala lét af þingmennsku á miðju kjörtímabili. Samfylkingin náði þremur mönnum inn á þing í kosningunum 2021, þar af tvo í Reykjavíkurkjördæmi norður og einn í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Ekki náðist í Dag B. Eggertsson við vinnslu fréttarinnar.