Meðmælasöfnun lýkur þann 31. október en hvert framboð þarf að ná lágmarksfjölda í hverju kjördæmi fyrir sig til að geta boðið fram.
Í færslu sem Ragnar setti inn í lokaðan hóp fyrir félaga í Vinstri grænum í morgun sagði hann mikið verk fyrir höndum til að ná lágmarksfjölda.
„Staðan í söfnun meðmælenda er áhyggjuefni, en nú eru sex dagar í skil og mikið verk fyrir höndum að ná lágmarksfjölda meðmælenda, hvað þá hámarksfjölda,“ sagði Ragnar í færslu sinni.
Því yrði sett upp úthringiver á skrifstofu flokksins um helgina. Þá hvatti hann fólk til þess að senda hlekkinn á sem flesta.

Á vef island.is kemur fram að fólk með kosningarétt getur mælt með framboði, en aðeins einu. Hægt er að afturkalla meðmæli og mæla með öðru framboði þar til söfnin lýkur. Lögheimili meðmælanda ræður því í hvaða kjördæmi hann mælir með stjórnmálasamtökum.
Komin í eða við lágmark
„Við erum komin í og við lágmark í nánast öllum kjördæmum núna,“ segir Ragnar Auðun í samtali við fréttastofu í kvöld.
Hann hafi haft nokkrar áhyggjur af stöðunni í morgun og því sent út þennan póst til félagsmanna.
„Þegar fólk var sett af stað þá reddaðist þetta bara. Það er alltaf bras að fá fólk til að setjast niður og bögga vini sína. En þegar þetta er sett upp svona þá bæði hafa fréttamenn áhuga og félagar taka því alvarlegar og senda ekki bara á mömmu og pabba.“
Hann segir lágmarkið þó ekki markmiðið.
„Við munum alltaf fara rúmlega til að vera örugg. Ég hef miklu minni áhyggjur í kvöld en ég hafði í morgun. Meðmælin voru að tikka inn í allan dag.“