Í frétt Ríkisútvarpsins segir að listar flokksins í Reykjavík verði kynntir á fimmtudag og samkvæmt upplýsingum fréttastofu sé „næstum frágengið“ að Brynjar verði í þriðja sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Í mat með Jóni
Blaðamaður sló á þráðinn til Brynjars, sem sagðist vera á matsölustað með félaga sínum Jóni Gunnarssyni, „sem var kosinn út í gær.“
Brynjar virtist alveg koma af fjöllum þegar frétt Ríkisútvarpsins var borin undir hann. „Ég veit ekki hvað uppstillingarnefndin er að gera, það hefur ekki verið talað við mig allavega. Það hefur ekki verið sagt mér, eins og maðurinn sagði.“
Dugði ekki til síðast
Brynjar hefur lýst því yfir að hann muni íhuga það alvarlega að taka sæti á lista Sjálfstæðismanna, yrði óskað eftir því.
„Það verður bara að koma í ljós. Þetta er ekki alveg í mínum höndum og ég veit ekki hvort menn vilji fá mig. Það verður bara að koma í ljós.“
Ljóst er að fái Brynjar þriðja sætið á hann harða kosningabaráttu fyrir höndum en hann skipaði sama sæti í kosningunum árið 2021. Það dugði honum nokkuð óvænt ekki til að komast inn á Alþingi.