Íslenski boltinn

„Ég trúi þessu ekki enn­þá“

Dagur Lárusson skrifar
Þorsteinn í baráttunni í kvöld.
Þorsteinn í baráttunni í kvöld. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Þorsteinn Aron Antonsson, leikmaður HK, var himinlifandi í leikslok eftir að hafa skorað dramatískt sigurmark gegn Fram í Bestu deildinni í kvöld sem þýðir að HK á enn von um að halda sér í deildinni.

„Þessi tilfinning er geðveik, ég trúi þessu ekki ennþá,“ byrjaði Þorsteinn að segja eftir leik.

„Ég sá að Eiður var að fara að vinna þennan skalla því hann gerir það yfirleitt. Ég spretti þá beint í gegn og fékk hann í lappirnar og kláraði sem betur fer.“

Þorsteinn vildi meina að HK-ingar hafi átti sigurinn skilið.

„Já, mér fannst sigurmarkið alltaf vera á leiðinni. Mér fannst við vera mikið betri í seinni hálfleik og við sóttum mikið á þá og þess vegna fannst mér við eiga þetta skilið.“

Þetta var þriðja mark Þorsteins gegn Fram í sumar og einnig þriðja sigurmarkið gegn Fram en hann segist elska að spila gegn þeim.

„Ég bara elska að spila gegn Fram. Þriðja sigurmarkið, það eiginlega gerist ekki betra en það,“ endaði Þorsteinn Aron á að segja, sem flaut nánast um á bleiku skýi í leikslok.

Úrslitin þýða að HK jafnar Vestra að stigum en HK er með mun verri markatölu en Vestri. Úrslitin ráðast því í lokaumferðinni næsta laugardag. Þar sækir HK KR heim meðan að Vestri tekur á móti föllnum Fylkismönnum, sem hafa að engu að keppa nema stoltinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×