Körfubolti

Lárus: Það er best að hitta þá ekki eftir svona leik

Árni Jóhannsson skrifar
Lárus hefur oftar verið kátari með liðið sitt en í kvöld.
Lárus hefur oftar verið kátari með liðið sitt en í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn, Lárus Jónsson, var að vonum súr og svekktur með niðurstöðuna úr leik sinna manna gegn KR en svekktastur var hann með hvað hans menn lögðu í leikinn. Sem var ekki mikið að hans mati. Leikurinn endaði með sigri KR 92-97 og var þetta fyrsta tap Þórs í vetur.

„Ég er svekktastur með það hvað menn lögðu lítið á sig í dag“, sagði Lárus þegar hann var spurður að því hvað hann væri svekktastur með úr leiknum í kvöld og hélt áfram:

„Ég held að við höfum verið með eina villu dæmda á okkur þegar minna en ein mínúta var eftir af öðrum leikhluta. Þeir skoruðu 15 stig úr seinni tækifæris stigum og tóku þeir fleiri sóknarfráköst en við varnarfráköst. Það er það sem ég er svekktastur með. Effort-leysið. Allt annað var bara allt í lagi. Mér fannst þeir vera að keppa en við vorum bara að spila. Ég hef séð meiri áreynslu hjá mínum mönnum á æfingu.“

Hvað veldur því að lið eins og Þór frá Þorlákshöfn mæti svona til leiks eftir að hafa unnið tvo fyrstu leikina og allt í blóma þannig lagað?

„Við mætum bara flatir út. Við höfum kannski verið of ánægðir með sjálfa okkur og haldið að þetta yrði einfalt. Það sem við komum svo með að borðinu í seinni hálfleik var svo aðeins of lítið og aðeins of seint þegar þeim var farið að líða vel. Þegar við nálguðumst þá þá settu þeir stór skot. Það voru settir stórir þristar frá þeim sem héldu okkur í seilingarfjarlægð frá þeim. Allt skot sem við sættum okkur við en þeim var farið að líða vel og komnir með sjálfstraust. Þú vinnur ekki körfuboltaleiki nema að reyna á þig.“

Þarf Lárus að segja eitthvað sérstakt við sína menn eftir þennan leik?

„Það er best að hitta þá ekki eftir svona leik“, sagði Lárus að lokum. Skiljanlega hundfúll.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×