Körfubolti

Martin fékk ó­vænt sím­tal á fæðingar­deildinni

Aron Guðmundsson skrifar
Martin í landsleik með Íslandi gegn Tyrklandi 
Martin í landsleik með Íslandi gegn Tyrklandi  Vísir/Getty

Martin Her­manns­son, lands­liðs­maður í körfu­bolta og leik­maður Alba Ber­lín, birtist í skemmti­legu inn­slagi hjá Dyn Basket­ball þar sem að hann upp­lýsti hvert væri þekktasta nafnið í síma­skránni hjá honum og kom í ljós að það er fyrr­verandi NBA leik­maður Tony Parker sem varð fjór­faldur NBA meistari á sínum ferli.

Inn­slagið birtist í tengslum við Evrópu­deildina í körfu­bolta þar sem að Martin, með liði sínu Alba Ber­lín, hefur ný­lokið að etja kappi við franska liðið ASVEL sem Tony Parker er meiri­hluta eig­andi í.

Martin reyndist liði ASVEL Þrándur í götu í gær en hann setti niður tuttugu og eitt stig í fimm stiga sigri Alba Ber­lín, 84-79, og var stiga­hæsti leik­maður Alba Ber­lín.

Í inn­slagi Dyn Basket­ball segir Martin frá því að Parker hafi í­trekað reynt að fá hann til liðs við ASVEL. Eitt sím­talanna frá Parker kom árið 2018 þegar að Martin var á fæðingar­deildinni með unnustu sinni, Önnu Maríu Bjarnadóttir og hafði orðið faðir í fyrsta sinn.

Tony Parker gerði garðinn frægan með liði San Antonio Spurs í NBA deildinni.Vísir/Getty

„Parker hefur reynt að fá mig til liðs við ASVEL þrisvar eða fjórum sinnum. Þegar að ég varð faðir í fyrsta skipti var Tony Parker fyrstur til þess að hringja í mig. Svona fimm til tíu mínútum eftir að sonur minn fæddist var ég að ræða við Tony Parker í símann og um leið að halda á syni mínum í fyrsta skipti á sama tíma.

Parker lék allan sinn NBA feril með liði San Antonio Spurs og varð fjórum sinnum NBA meistari. Þá var hann sex sinnum valinn í stjörnu­lið deildarinnar.

„Hann er einn af mínum eftir­lætis körfu­bolta­mönnum. Þetta var súrealísk stund. Að halda á syni mínum og ræða við Tony Parker í símann þar sem að hann sagðist vera að­dáandi minn. Það var mjög erfið á­kvörðun að ganga ekki til liðs við ASVEL en þetta var sama ár og ég gekk til liðs við Alba Ber­lín í fyrsta sinn árið 2018. Ég get því ekki sagt að þetta hafi verið slæm á­kvörðun hjá mér.

Hér fyrir neðan má sjá samantekt frá leik Alba Berlín og ASVEL í Evrópudeildinni á dögunum. Var um að ræða fyrsta sigur Berlínarmanna í deildinni á yfirstandandi tímabili. Liðið tekur á móti tyrkneska liðinu Fenerbache í kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×