Spennan er mikil. Víkingur og Breiðablik eru jöfn að stigum á toppnum og berjast um Íslandsmeistaratitilinn, sem Víkingur vann í fyrra og Blikar árið á undan.

Það er þegar ljóst að liðin munu mætast í hreinum úrslitaleik um titilinn í lokaumferðinni en úrslit helgarinnar ráða miklu um hver staða þeirra verða í lokaleiknum. Víkingar eru með betri markatölu en þar munar níu mörkum.
Blikar spila á heimavelli á móti Stjörnunni klukkan 17.00 á laugardaginn og vita þá úrslitin úr leik Víkings.
Víkingar eiga útileik á Akranesi klukkan 14.00 sama dag en ÍA vann síðasta leik liðanna í Víkinni á dögunum.
Víkingar sækjast eftir stuðningi í þessum mikilvæga leik og hafa því ákveðið að bjóða upp á fríar rútuferðir upp á Skaga. Það er hægt að nálgast miða í þær hér.
Fjörið byrjar með upphitun á Frikkabar og Lárustofu klukkan 10.00. Rúturnar leggja af stað frá Víkinni og upp á Akranes klukkan 12.00. Það verður síðan forskott á Akranesi frá klukkan 13.00. Eftir leik munu síðan rúturnar skila stuðningsfólkinu aftur í Víkina.