Upp­gjörið: Ís­land - Wales 2-2 | Logi sem þarf að verða að báli

Sindri Sverrisson skrifar
Logi Tómasson kom Íslandi til bjargar með tveimur mörkum. Hann gaf ungum aðdáendum treyjuna sína efitr leik.
Logi Tómasson kom Íslandi til bjargar með tveimur mörkum. Hann gaf ungum aðdáendum treyjuna sína efitr leik. vísir/Anton

Varamaðurinn Logi Tómasson sá til þess að Ísland næði þó að minnsta kosti í stig gegn Wales í kvöld, þegar liðin gerðu 2-2 jafntefli í Þjóðadeildinni í fótbolta, í leik tveggja gjörólíkra hálfleika.

Wales komst í 2-0 í fyrri hálfleiknum eftir að hafa galopnað íslensku vörnina nokkrum sinnum, og skoruðu úrvalsdeildarmennirnir Harry Wilson og Brennan Johnson mörkin.

Í seinni hálfleik mætti hins vegar allt annað íslenskt lið til leiks. Vinstri bakvörðurinn Logi Tómasson kom inn á og skoraði tvö frábær mörk, og Ísland fékk fjölda færa til að stela sigrinum.

Þar með er allt galopið í riðli Íslands en liðið er með fjögur stig eftir þrjá leiki af sex og Wales með fimm stig. Ísland þarf nú á sigri að halda gegn Tyrklandi á mánudagskvöld, og neistinn sem Logi kveikti með innkomu sinni að verða að báli.

Tyrkir unnu Svartfellinga í kvöld, 1-0, og eru efstir í riðlinum með sjö stig. Wales er með fimm, Ísland fjögur og Svartfjallaland án stiga. Efsta liðið kemst upp í A-deild Þjóðadeildar og tryggir sér nær örugglega sæti í umspili fyrir HM 2026. Liðið í 2. sæti fer í umspil um að komast í A-deild, liðið í 3. sæti í umspil um að forðast fall í C-deild, og neðsta liðið fellur í C-deild.

Jón Dagur Þorsteinsson var kraftmikill að vanda og óhemju nálægt því að skora sigurmark í kvöld.vísir/Anton

Stóra saga leiksins í kvöld er innkoma Loga. Åge Hareide kaus að tefla frekar fram Kolbeini Finnssyni í vinstri bakverði, og gerði honum kannski engan greiða með því enda hefur Kolbeinn nánast ekkert verið að spila með liði sínu Utrecht í Hollandi og virkaði mjög óöruggur í fyrri hálfleiknum.

Logi inn á og Johnson út af

Hareide gerði hins vegar vel í að smella Loga inn strax í seinni hálfleik og það vantaði ekkert upp á kraftinn og sjálfstraustið í tónlistarmanninum.

Á sama tíma hélt Craig Bellamy kannski að sigurinn væri í höfn því hann kippti besta leikmanni sínum, Brennan Johnson, af velli eftir fyrri hálfleik til að hlífa honum og hvíla fyrir leikinn við Svartfellinga á mánudag. Dýrkeypt ákvörðun að því er virtist, og Walesverjar voru bara stálheppnir að fá stig á endanum.

Einstefna í seinni hálfleik

Eftir þessar breytingar var nefnilega einstefna að marki Wales í seinni hálfleik og íslenska liðið óð gjörsamlega í færum. Skilvirknin hefði kannski mátt vera betri en maður vissi samt upp á hár að það væri íslenskt mark á leiðinni.

Mikael Egill Ellertsson kom með Loga inn á, fyrir Willum Willumsson, og kom sér strax í góð færi en fór illa með þau. Orri Óskarsson átti þrumuskot í slá, Andri Lucas Guðjohnsen sem lék með Orra frammi komst í dauðafæri, og Jóhann Berg Guðmundsson átti skot sem Danny Ward varði með ótrúlegum naumindum.

Fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson stóð fyrir sínu á miðju íslenska liðsins.vísir/Anton

Svo kom fyrra mark Loga. Frábær og stórsniðug utanfótarsnudda utan teigs. Markið gerði auðvitað ekkert annað en að efla trúna hjá Íslendingum sem óðu hreinlega yfir gestina. Logi bætti svo við öðru marki með stórkostlegum hætti, þegar hann þræddi endalínuna og þrumaði í Ward og inn.

Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á seint í leiknum og náði ekki að setja mark sitt á hann.vísir/Anton

Stangarskot í stað sigurmarks

Þarna voru enn tuttugu mínútur eftir og áfram algjör einstefna að marki Wales. Jón Dagur komst næst því að skora sigurmark þegar hann átti fallegt bogaskot sem fór því miður í stöng og framhjá.

Það vantaði því bara örfáa sentímetra upp á að Ísland næði í þrjú stig, þrátt fyrir þennan fyrri hálfleik sem litaðist af því hve auðveldlega Walesverjar gátu komið löngum sendingum yfir íslensku vörnina og búið til algjör dauðafæri fyrir Harry Wilson, einan gegn Hákoni markverði.

Skelfilegt og í raun mjög óvanalegt að sjá, og stórt skref aftur á bak miðað við þróun liðsins að undanförnu. Það tókst heldur betur að bæta úr þessu í seinni hálfleik og sigur gegn Tyrklandi kæmi Íslandi aftur í spennandi stöðu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira