Enciso og félagar hans í Brighton unnu góðan 3-2 endurkomusigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Hann flaug svo til Suður-Ameríku til móts við samherja sína í paragvæska landsliðinu sem gerði markalaust jafntefli við Ekvador í undankeppni HM í gær.
Í flugvélinni á leiðinni til Ekvador leið yfir Enciso en annar farþegi kom honum til aðstoðar.
„Ég fann til í höfðinu. Ég dó næstum því. Það leið yfir mig. Ég var kraftlaus. Ég borðaði hvorki né svaf. Ég fór síðan á klósettið og leið eins og ég væri að detta. Maður greip mig og fór með mig fremst í vélina. Hann lét mig drekka kók og borða japanska súpu og það gerði mér gott,“ sagði Enciso sem var í byrjunarliði Paragvæa í leiknum í gær. Hann var tekinn af velli á 67. mínútu.
Hinn tvítugi Enciso hefur leikið tuttugu landsleiki fyrir Paragvæ og skorað eitt mark. Hann hefur spilað með Brighton síðan 2022.