Viðskipti innlent

Upp­sagnir hjá ÁTVR

Atli Ísleifsson skrifar
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að áætlað sé að aðgerðirnar spari um 300 milljónir á ári.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að áætlað sé að aðgerðirnar spari um 300 milljónir á ári. ÁTVR/Vísir/Vilhelm

Sjö starfsmönnum á skrifstofu ÁTVR var sagt upp í gær. Staða verslunarstjóra í tveimur Vínbúðum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið lögð niður og þá hefur verið ráðist í fleiri aðgerðir til að bregðast við kröfum um hagræðingu í rekstri. Stöður aðstoðarverslunarstjóra hafa sömuleiðis verið lagðar niður í nokkrum verslunum.

Þetta staðfestir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, í svari við fyrirspurn fréttastofu. Hún segir að uppsagnirnar í gær hafi náð til skrifstofu og fjögurra af fimmtíu Vínbúðum. Varðandi uppsagnirnar í verslunum þá hafi þær verið sex, en að í sumum tilvikum hafi starfsfólki verið boðið annað starf.

Hún segir að tvær Vínbúðir á höfuðborgarsvæðinu fari nú undir stjórn stærri Vínbúða á höfuðborgarsvæðinu og staða verslunarstjóra lögð niður.

Ívar J. Arndal hefur verið forstjóri ÁTVR frá árinu 2005. Hann hafði þá starfað í fimmtán ár hjá fyrirtækinu. Hann hefur verið nefndur andlitslausi forstjórinn en hann veitir fjölmiðlum ekki viðtöl heldur lætur aðstoðarforstjórann alfarið um það.

„Verslunarstjórnum í þeim Vínbúðum er boðið að taka stöðu verkstjóra. Slíkt fyrirkomulag hefur verið í Vínbúðinni Smáralind í nokkur ár en Vínbúðin á Dalveg fer með stjórn Vínbúðarinnar en verkstjóri hefur daglega umsjón. Stöður aðstoðarverslunarstjóra voru lagðar niður í fjórum Vínbúðum. Markmiðið er að auka samþættingu í stjórnun og mönnun Vínbúða.

Aðgerðirnar eru liður í tilmælum stjórnvalda um áherslu á aukna hagræðingu í rekstri ríkisins og stofnana og til að takast á við breytingar í ytra umhverfi,“ segir Sigrún Ósk.

300 milljónir

Aðstoðarforstjórinn segir að frekari uppsagnir séu ekki áformaðar og engin ákvörðun hafi verið tekin um lokun Vínbúða. Þá séu ekki áformaðar verulegar breytingar á opnunartíma. 

„Áætlað er að þessar og aðrar aðhaldsaðgerðir spari um 300 milljónir,“ segir Sigrún Ósk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×