Erlent

Demó­kratar uggandi yfir niður­stöðum skoðana­kannana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Afgerandi sigur Harris í kappræðum forsetaefnanna hefur ekki sýnt sig í skoðanakönnunum.
Afgerandi sigur Harris í kappræðum forsetaefnanna hefur ekki sýnt sig í skoðanakönnunum. Getty/Robert Nickelsberg

Demókratar eru sagðir uggandi yfir skoðanakönnunum vestanhafs og óttast að stuðningur við Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og forsetaefnis Repúblikanaflokksins, sé vanmetinn.

Kamala Harris, varaforseti og forsetaefni Demókrataflokksins, hefur verið að mælast með um þriggja prósenta forskot á Trump á landsvísu og þá er einnig afar mjótt á munum í svokölluðum barátturíkjum.

Harris hefur verið að mælast með allt að sex prósent forskot á Trump í Pennsylvaníu, þar sem sigur tryggir 19 kjörmenn. Hún er hins vegar með aðeins eins til tveggja prósenta forskot í Michigan og Wisconsin.

Þá sýna niðurstöður nýjustu skoðanakannana New York Times og Siena College að Trump hefur náð Harris og aukið fylgi sitt í Norður-Karólínu, Arizona og Georgíu, þar sem hann nýtur nú tveggja til fimm prósenta forskots.

Áhyggjur Demókrata byggja meðal annars á því að Trump fékk töluvert meira fylgi í Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin í kosningunum 2016 og 2020 en hann mældist með í skoðanakönnunum. Ef skekkjan reynist jafn mikil nú myndi hann fara með sigur af hólmi í öllum barátturíkjunum sjö, en þar er ónefnt Nevada.

Samkvæmt spá Focaldata, sem tekur tillit til samsetningu kjósenda á hverjum stað, fengi Harris líklega að meðaltali 2,4 prósent færri atkvæði í barátturíkjunum en kannanir sýna.

Demókratar horfa einnig til þess að bæði Hillary Clinton og Joe Biden mældust með meira forskot á Trump árin 2016 og 2020 en Harris nú.

Ljósi punkturinn í myrkrinu er hins vegar sá að ef skoðanakannanir reynast jafn „skakkar“ og þær reyndust fyrir þingkosningarnar 2022 þá myndi Harris taka öll barátturíkin utan Georgíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×