Samantha Smith hefur farið hamförum frá því að hún skipti frá FHL til Breiðabliks um mitt sumar en hún hafði þá lagt grunninn að því að FHL tryggði sæti sitt í Bestu deildinni, og reynir nú við annan deildartitil. Smith skoraði 15 mörk í 14 leikjum fyrir austan áður en hún flutti í Kópavoginn.
Hjá Blikum hafði hún skorað fjögur í jafnmörgum leikjum fyrir leik gærdagsins við Þór/KA á Kópavogsvelli. Þar voru aðeins 14 mínútur liðnar þegar Smith var búin að skora þrjú. Mörkin því orðin sjö í fimm leikjum.
Þær Andrea Rut Bjarnadóttir, Kristín Dís Árnadóttir og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir settu þá eitt hver áður en Sandra María Jessen skoraði sárabótamark fyrir Norðankonur, hennar 22. mark í deildinni í sumar.
Valur er aðeins stigi á eftir Breiðabliki þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni. Valskonur unnu 2-0 sigur á FH að Hlíðarenda í gær þar sem Nadía Atladóttir, fyrrum leikmaður FH, skoraði mark í sitt hvorum hálfleiknum fyrir Valskonur.
Á föstudag gerðu þá Víkingur og Þróttur 1-1 jafntefli í efri hluta Bestu deildinnar. Hulda Ösp Ágústsdóttir kom Víkingum yfir en Þórdís Nanna Ágústsdóttir jafnaði undir lok leiks.
Öll mörkin má sjá í spilurunum að ofan.
Næstu helgi mætir Breiðblik FH-ingum í Kópavoginum en Valur sækir Víking heim. Fái liðin sama stigafjölda úr leikjum sínum verður hreinn úrslitaleikur milli liðanna tveggja um Íslandsmeistaratitilinn á Hlíðarenda 5. október næst komandi.