Olivia Nuzzi er einn þekktasti blaðamaður New York en viðtal hennar við Donald Trump er forsíðugrein í nýjasta hefti tímaritsins. Hún skrifaði meðal annars langa umfjöllun um Kennedy og framboð hans sem birtist í nóvember. Í henni lýsti Nuzzi meðal annars skelfilegri bílferð með Kennedy og hundum hans.
Sú lífsreynsla virðist þó ekki hafa verið skelfilegri en svo að Nuzzi og Kennedy áttu í persónulega sambandi sem hún greindi vinnuveitendum sínum á tímaritinu ekki frá.
Ritstjóri New York greindi starfsmönnum tímaritsins frá málinu í dag, að sögn AP-fréttastofunnar. Hann sagði að Nuzzi hefði sagt stjórnendum tímaritsins að hún hefði ekki tekið upp sambandið við Kennedy fyrr en í desember, eftir að umfjöllun hennar um hann birtist. Sambandi þeirra hafi lokið í ágúst.
Rauf trúnað við lesendur
Tímaritið sagði í gær að ef ritstjórar þess hefðu vitað af sambandi Nuzzi við Kennedy hefðu þeir ekki leyft henni að fjalla um forsetakosningarnar í haust. Hún hefði brotið siðareglur tímaritsins.
Úttekt á störfum Nuzzi hefði ekki leitt í ljós neinar staðreyndavillur eða merki um hlutdrægni. Hún yrði engu að síður í leyfi á meðan utanaðkomandi aðili færi nánar yfir verk hennar.
„Við hörmum þetta brot á trúnaði við lesendur okkar,“ sagði tímaritið í yfirlýsingu.
Vefútgáfum af greinum sem Nuzzi skrifaði um Joe Biden í sumar og Donald Trump nú í haust munu fylgja athugasemdir þar sem greint er frá mögulegum hagsmunaárekstri Nuzzi.
Nuzzi sagði í yfirlýsingu að samband hennar við viðmælanda hafi orðið persónulegt en nefndi ekki Kennedy á nafn. Samband þeirra hefði aldrei orðið holdlegt. Hún hefði engu að síður átt að upplýsa um sambandið. Bað hún samstarfsfélaga sína á tímaritinu afsökunar.
Kennedy, sem dró framboð sitt til forseta til baka og lýsti yfir stuðningi við Trump fyrr í þessum mánuði, sagðist í yfirlýsingu aðeins hafa hitt blaðakonuna einu sinni. Kennedy er giftur leikkonunni Cheryl Hines.