Innlent

Ráðist í að­gerðir gegn sam­skipta­þjónustu sem glæpa­menn notuðu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla lagði hald á vopn, fíkniefni og fjármuni í aðgerðum sínum.
Lögregla lagði hald á vopn, fíkniefni og fjármuni í aðgerðum sínum. Europol

Lögregluyfirvöld á Íslandi áttu aðkomu að aðgerðum á dögunum sem miðuðu að því að taka niður dulkóðaðan samskiptamiðil sem notaður var til skipulagðrar glæpastarfsemi.

Samkvæmt frétt á vef European Union Agency for Criminal Justice Cooperation var 51 handtekinn í samræmdum aðgerðum víða um heim, þar af 38 í Ástralíu, ellefu á Írlandi, einn á Ítalíu og einn í Kanada.

Það voru yfirvöld á Frakklandi sem  hófu rannsókn á málinu en samskiptaþjónustan var hýst á vefþjónum í Frakklandi og á Íslandi. Sérfræðingar frá Europol ferðuðust til Íslands, Írlands og Ástralíu til samráðs á meðan rannsókn málsins stóð yfir.

Samkvæmt tilkynningu frá Europol var samkskiptaþjónustan, kölluð Ghost, notið til að skipuleggja sölu og dreifingu fíkniefna, peningaþvætti, ofbeldisverk og önnur brot. Glæpasamtök voru sögð nýta sér þjónustuna, þar sem notendur gátu keypt aðgang án þess að gefa upp neinar persónuupplýsingar og öll samskipti voru vandlega dulkóðuð.

Þá var hægt að senda skilaboð í síma með ákveðnum kóða til að eyðileggja öll gögn á viðkomandi símtæki.

Þjónustan er sögð hafa verið til sölu í mörgum ríkjum og notendurnir telja þúsundir. Talið er að um þúsund skilaboð hafi verið send í gegnum þjónustuna daglega.

Eigendur samskiptamiðilsins eru sagðir hafa verið staðsettir í Ástralíu en fjárhagslegar eignir í Bandaríkjunum. Aðgerðirnar í Ástralíu miðuðu einnig að því að taka niður fíkniefnaframleiðslu og þá var lagt hald á vopn, fíkniefni og fjármuni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×