Sport

Chiles á­frýjar til Hæsta­réttar vegna bronsins sem var tekið af henni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jordan Chiles með bronsmedalíuna sem var tekin af henni.
Jordan Chiles með bronsmedalíuna sem var tekin af henni. getty/Naomi Baker

Bandaríska fimleikakonan Jordan Chiles hefur áfrýjað til Hæstaréttar Sviss vegna bronsverðlaunanna sem voru tekin af henni á Ólympíuleikunum í París.

Chiles lenti upphaflega í 5. sæti í gólfæfingum í París. Hún fór hins vegar upp í 3. sætið eftir að teymi hennar kvartaði undan einkuninni sem hún fékk vegna of lágs erfiðleikastuðuls. 

Sú bandaríska fékk þó ekki bronsið en það féll í skaut Önu Barbosu frá Rúmeníu. Teymi hennar áfrýjaði til Alþjóða íþróttadómstólsins (Cas) vegna þess að kvörtunin frá Chiles og hennar teymi vegna einkunnar hennar kom fjórum sekúndum of seint.

Chiles hefur tvisvar áfrýjað úrskurðinum til Cas en án árangurs. Og nú hefur hún áfrýjað til Hæstaréttar Sviss til að freista þess að endurheimta bronsverðlaunin sem voru tekin af henni. Lögmenn Chiles telja að Cas hafi neitað að skoða myndbönd sem sýni að kvörtunin frá henni kom á réttum tíma.

Chiles varð fyrir miklu aðkasti eftir uppákomuna á Ólympíuleikunum og hefur greint frá því að hún hafi orðið fyrir kynþáttafordómum í tengslum við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×