Erlent

Flokkur Meloni of hægri­sinnaður fyrir Mus­solini

Kjartan Kjartansson skrifar
Rachele Mussolini er dóttir yngsta sonar Benito Mussolini, fasistaforingjans alræmda. Hún er gengin í flokk Silvio Berlusconi heitins.
Rachele Mussolini er dóttir yngsta sonar Benito Mussolini, fasistaforingjans alræmda. Hún er gengin í flokk Silvio Berlusconi heitins. Vísir/Getty

Sonardóttir Benito Mussolini, fyrrverandi einræðisherra Ítalíu, ætlar að segja skilið við hægrijaðarflokk Giorgiu Meloni forsætisráðherra þar sem henni þykir flokkurinn hafa færst of langt til hægri.

Rachele Mussolini, barnabarn fasistaforingjans alræmda, situr í borgarstjórn Rómarborgar fyrir hönd Bræðralags Ítalíu, flokks Meloni forsætisráðherra. Sá flokkur á rætur sínar að rekja til arftaka fasistaflokks Mussolini. Bræðralagið rekur nú harða stefnu í innflytjendamálum, varðandi þungunarrof og samkynja foreldra.

Stefnan virðist ekki hugnast Mussolini því hún tilkynnnti að hún ætlaði að yfirgefa flokkinn og ganga til liðs við Áfram Ítalíu, flokks Silvio Berluconis heitins, í borgarstjórn. Áfram Ítalía á einnig sæti í ríkisstjórn Meloni.

„Það er tími til kominn að snúa við blaðinu og ganga í flokk sem mér finnst standa nær hófsemi minni og miðjusækni,“ sagði Mussolini sem hlaut flest atkvæði nokkurs borgarfulltrúa í síðustu kosningum árið 2021, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Heimildir Reuters herma að Mussolini hafi sérstaklega verið óánægð með afstöðu Bræðralagsins til borgaralegra réttinda. Áfram Ítalía þykir frjálslyndari flokkur þrátt fyrir að hann gefi sig einnig út fyrir að standa vörð um íhaldssöm kristileg gildi.

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítaliu, (t.h.) á góðri stundu með Katrínu Jakobsdóttur, þáverandi forsætisráðherra.Evrópuráðið

Tók upp hanskann fyrir alsírska boxkonu

Nýlega gagnrýndi Mussolini ummæli Meloni um Imane Khelif, alsírskan boxara. Mikið fjaðrafok upphófst eftir að Angela Carini, ítalskur keppinautur Khelif, gafst upp í bardaga þeirra á Ólympíuleikunum og falskar ásakanir flugu um að Khelif væri í raun karlmaður eða transkona.

Meloni sagði að bardaginn hefði verið ósanngjarn og vísaði til þess að Khelif hefði fallið á „kynjaprófi“ á heimsmeistaramóti í fyrra. Sambandið sem stóð að þeirri keppni er þó rúið trausti og forsvarsmenn hafa aldrei viljað upplýsa hvað fólst í prófinu eða hvernig Khelif hefði fallið á því.

Mussolini tók þá upp hanskann fyrir Khelif.

„Þar til annað er sannað er Imane Khelif kona og hún hefur orðið fyrir ómaklegum nornaveiðum,“ sagði hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×