Muchova vann hina brasilísku Beatriz Haddad Maia í tveimur settum og það nokkuð örugglega, 6-1 og 6-4. En það vakti athygli að hún hljóp á klósettið eftir sigurinn í fyrra settinu, aftur í stöðunni 2-1 og enn í stöðunni 3-2, áður en hún fékk svo aðstoð læknis og sjúkraþjálfara í stöðunni 4-3, í seinna settinu.
„Þetta var skrýtinn leikur,“ viðurkenndi Muchova eftir sigurinn. „Ég glímdi við vandræði sem ég vil ekki tjá mig frekar um en ég þurfti alltaf að vera að hlaupa á klósettið og til baka,“ sagði Muchova.
„Mér þykir fyrir því ef þetta truflaði einhvern en ég átti engra annarra kosta völ,“ bætti hún við.
Muchova mun í undanúrslitunum mæta Jessicu Pegula sem gerði sér lítið fyrir og sló út efstu konu heimslistans, Iga Swiatek, með sigri í tveimur settum, 6-2 og 6-4. Undanúrslit á mótinu hefjast í dag.