Sport

Biles hélt „jarðar­för“ fyrir gullstökkið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simone Biles með verðlaunapeningana sem hún vann á Ólympíuleikunum í París í sumar.
Simone Biles með verðlaunapeningana sem hún vann á Ólympíuleikunum í París í sumar. Getty/Naomi Baker

Besta fimleikakona sögunnar hélt sérstaka og táknræna minningarathöfn á dögunum.

Bandaríska fimleikakonan Simone Biles átti magnaða Ólympíuleika í París þar sem hún vann fern verðlaun þar af þrenn gullverðlaun.

Biles hefur þar með unnið ellefu verðlaun á Ólympíuleikum og er í öðru sæti í fimleikasögu leikanna á eftir Larisu Latyninu, bæði heildarverðlaunum (11) og gullverðlaunum (7).

Biles er orðin 27 ára gömul og það er ekki líklegt að hún keppi á næstu Ólympíuleikum í Los Angeles 2028.

Biles vann gullverðlaun í stökki á Ólympíuleikunum í París með mögnuðu gullstökki. Stökki sem engin önnur fimleikakona ræður við.

Biles varð fyrsta konan til að lenda eftir Yurchenko stökk með tvöföldum snúningi en hún storkar bókstaflega þyngdarlögmálinu í þessu erfiðasta stökki sem fyrirfinnst.

Hér eftir heitir þetta stökk „Biles II“ en við munum þó ekki sjá hana reyna þetta aftur.

Biles hélt nefnilega einhvers konar jarðarför fyrir gullstökkið sitt.

„Hvíldu í friði, Yurchenko stökk með tvöföldum snúningi,“ skrifaði Biles á samfélagsmiðla sína og myndin var af henni á hestinum með jarðarfarablóm allt í kringum sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×