Stærsti hluti verkefna skólaliðanna sem var sagt upp sneri að ræstingum í grunnskólum, að því er segir í skriflegu svari Ástu Sigrúnar Magnúsdóttur, samskiptastjóra Garðabæjar, við fyrirspurn Vísis. Hún fullyrðir að umönnun barna í skólum í Garðabæ skerðist ekki við breytingarnar á fyrirkomulagi þrifa.
Störf þeirra 22 skólaliða sem eftir eru breytast: sumir þeirra verða stuðningsfulltrúar, aðrir frístundaliðar og nokkur verða áfram í hlutverki skólaliða ásamt öðrum verkefnum. Uppsagnarfrestur skólaliðanna sem voru látnir fara er mislangur og fer eftir starfsaldri.
Dagar áttu lægsta tilboðið í ræstingar í stofnunum Garðabæjar sem voru boðnar út í maí.