Erlent

Rann­saka skip­stjóra lysti­snekkjunnar sem sökk

Kjartan Kjartansson skrifar
Kafarar flytja lík eins þeirra sem fórst með snekkjunni í land á Sikiley.
Kafarar flytja lík eins þeirra sem fórst með snekkjunni í land á Sikiley. AP/Alberto Lo Bianco/La Presse

Ítalskir saksóknarar rannsaka nú skipstjóra lystisnekkjunnar Bayesian sem sökk undan ströndum Sikileyjar fyrr í þessum mánuði. Hann er grunaður um manndráp og að valda sjóslysi.

Sjö manns fórust þegar snekkjan sökk með 22 manns um borð  í vonskuveðri rétt utan við höfnina Porticello á Sikiley, þar á meðal breski tæknimógúllinn Mike Lynch og átján ára gömul dóttir hans.

Lögmaður James Cutfield, nýsjálensks skipstjóra snekkjunnar, segir við Reuters-fréttastofuna að hann sé til rannsóknar og gefi skýrslu um slysið í dag. Rannsókn af þessu tagi þýðir ekki endilega að skipstjórinn verði ákærður.

Saksóknarar hafa sagt að rannsókn slyssins eigi eftir að taka sinn tíma. Hún veltur einnig á því að flak snekkjunnar náist af hafsbotni á um fimmtíu metra dýpi. Ambrogio Cartosio, saksóknarinn sem fer með málið, sagði um helgina að hann teldi líklegt að lögbrot hefðu verið framin, þar á meðal manndráp.

Snekkjan sökk á örfáum mínútum eftir að veðrið dundi á snemma að morgni 19. ágúst. Fimmtán manns komust lífs af, þar á meðal eins árs gömul stúlka. Tólf farþegar og tíu manna áhöfn var um borð.


Tengdar fréttir

Mann­skæða slysið nú rann­sakað sem mögu­legt mann­dráp

Saksóknarar á Ítalíu rannsaka nú hvort að andlát sjö eftir að snekkja auðkýfingsins Mike Lynch sökk á örfáum sekúndum við Sikiley á mánudagsmorgun geti talist sem manndráp af gáleysi sökum þess að ekki var gripið til réttra aðgerða til að koma í veg fyrir slysið.

Búið að bera kennsl á lík auðkýfingsins

Fimm líkamsleifar þeirra sex sem fórust, þegar snekkjan Bayesian sökk rétt utan við Sikiley á mánudaginn, hafa fundist og er nú búið að bera kennsl á öll líkin. Einn þeirra var breski auðkýfingurinn Mike Lynch en snekkjan var í eigu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×