Þetta var fyrsti sigur Stjörnumanna í ágústmánuði og sá fyrsti síðan þeir sóttu þrjú stig upp á Akranes í lok júlí. Liðið hafði leikið þrjá leiki í röð án sigurs.
Örvar Eggertsson kom Stjörnunni í 1-0 á 21. mínútu eftir undirbúning þeirra Óla Vals Ómarssonar og Róberts Frosta Þorkelssonar. Örvar skoraði af miklu harðfylgi en hann var að skora á móti sínum gömlu félögum. Hann var kominn niður á rassinn í teignum en tókst samt að skora. Sjötta mark Örvars í Bestu deildinni í sumar.
Óli Valur skoraði sjálfur annað markið á 61. mínútu og þá eftir laglega stoðsendingu frá Róberti Frosta. Fjórða mark Óla Vals í Bestu deildinni í sumar.
Stjörnumenn hoppuðu upp fyrir bæði KA og Fram með þessum góða sigri. Stjarnan er nú með eins stigs forskot á KA og tveggja stiga forskot á Fram í baráttunni um að vera sjötta og síðasta liðið inn í efri hluta úrslitakeppninnar.
Með þessum sigri skildu Stjörnumenn líka HK-inga eftir í fallsæti.
Hér fyrir neðan má sjá bæði mörkin úr leiknum.