Innlent

Frost í Reykja­vík í nótt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hitinn í Víðidal mældist undir frostmarki í nótt.
Hitinn í Víðidal mældist undir frostmarki í nótt. Vísir/Vilhelm

Hitastigið fór niður í mínus 0,9 gráður í Víðidal í Reykjavík klukkan sex í morgun. Mælt er í tveggja metra hæð og líklega hefur verið enn kaldara niðri við jörð. 

Frá þessu greinir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á Facebook-síðu sinni. Önnur stöð innarlega í Fossvogsdalnum sýndi mínus 0,1 gráðu. 

Við húsnæði Veðurstofunnar mældist hitinn lægstur 3,2 gráður í nótt og er það lægsti hitinn þar í ágúst síðan árið 2012. Séu leitarskilyrðin þrengd og miðað við lægsta hita fyrir 25. ágúst er hitinn sá lægsti í þrjátíu ár.

Lægsti hitinn á láglendi Íslands í nótt var á Þingvöllum þar sem hitinn mældist mínus 2,3 gráður. Aðrir láglendisstaðir virðast hafa sloppið frá næturfrosti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×