Flintoff tók við bílaþáttunum Top Gear á BBC árið 2019 en hafði áður verið í ýmsum sjónvarpsþáttum eftir að krikketferlinum lauk, þar á meðal A League of Their Own um árabil. Flintoff var hetja enska landsliðsins sem vann Ashes árið 2005 og var valinn íþróttamaður ársins árið 2005.
Í desember 2022 snerist líf hans á hvolf er hann hlaut alvarlega áverka í andlit eftir alvarlegt bílslys við upptökur á Top Gear. Hann tjáði sig í fyrsta sinn opinberlega um slysið og eftirmála þess í viðtali við BBC.
„Ég ætti ekki að vera hérna, eftir það sem gerðist,“ segir Flintoff. „Það er langur batavegur fram undan og vinnan er rétt að hefjast. Ég mun þurfa hjálp og ég er ekki bestur í að biðja um hana.“

Flintoff hefur gengist undir fjölda aðgerða eftir slysið og fór tæplega út úr húsi mánuðum saman, þar sem hann afskræmdist í framan vegna slyssins. Þegar hann fór út var það með grímu og gleraugu.
„Þetta hefur verið töluvert erfiðara en ég hélt. Eins mikið og ég vildi fara út og gera hluti hefur það reynst erfiðara en ég bjóst við,“
„Ég glími við töluverðan kvíða, ég fæ martraðir og endurupplifi slysið. Það hefur verið mjög erfitt að glíma við þetta,“ segir Flintoff.
Tökur á Top Gear voru settar á ís eftir slysið og í nóvember 2023 staðfesti BBC að þættirnir myndu ekki snúa aftur í náinni framtíð. Flintoff var beðinn afsökunar af BBC í mars 2023 og honum greiddar skaðabætur.
Í september 2023 sneri Flintoff aftur í krikket. Hann hefur verið hluti af þjálfarateymi enska landsliðsins og er nú aðalþjálfari liðs Northern Superchargers.